Handbolti - Áhorfendur fagna á forsíðu
Selfyssingar knúðu fram oddaleik með sigri gegn Fjölni í gær í umspili liðanna um sæti í Olís-deildinni á næsta tímabili. Liðin mætast í hreinum úrslitaleik í dag kl. 19:30 í Dalhúsum í Grafarvogi. Búast má við troðfullu húsi og eru stuðningsmenn Selfyssinga hvattir til að mæta snemma á völlinn. Boðið verður upp á fríar rútuferðir á leikinn, andlitsmálun og skemmtun fyrir brottför.
Eftir tvo sigra Fjölnismanna í fyrstu leikjum umspilsins hafa Selfyssingar nú svarað með tveimur sigrum.
Fjórði leikur liðanna var jafn og spennandi en eftir fyrri hálfleik var staðan jöfn 15-15. Mikil spenna var í seinni hálfleik en Selfyssingar unnu að lokum nauman sigur 34-31 við mikinn fögnuð fjölmargra stuðningsmanna Selfoss sem troðfylltu íþróttahúsið.
Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.
Enn á ný var Teitur Örn Einarsson markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Elvar Örn Jónsson skoraði 7, Hergeir Grímsson 4, Atli Kristinsson, Eyvindur Hrannar Gunnarsson, Þórir Ólafsson og Árni Guðmundsson 3 og Sverrir Pálsson, Rúnar Hjálmarsson og Andri Már Sveinsson skoruðu allir 1 mark. Birkir Fannar Bragason varði 13 skot og Helgi Hlynsosn 5 skot á lokakaflanum.
Allir leikirnir í einvíginu hafa verið frábær skemmtun og má búast við öðru eins í oddaleiknum sem fer fram í Dalhúsum í Grafarvogi miðvikudag 4. maí klukkan 19:30.
Lokaorrustan er eftir, verum stolt af strákunum, verum stolt af okkur sjálfum. Við erum Selfoss, njótum og verum glöð. Mætum klukkutíma fyrir leik í vínrauðu og látum drauminn rætast. Þetta er okkar dagur! Áfram Selfoss!!
---
Stuðningur áhorfenda í stúkunni var stórkostlegur og ómetanlegur.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/JÁE