Strákarnir geta verið stoltir af árangri vetrarins

Handbolti - Einar Sverrisson
Handbolti - Einar Sverrisson

Selfoss hefur lokið leik í Olís-deild karla á þessu keppnistímabili eftir tap gegn Aftureldingu í tveimur leikjum í úrslitakeppninni.

Það þurfti framlengingu til að knýja fram úrslit í æsispennandi seinni leik liðanna sem fram fór á Selfossi í gær en að henni lokinni hafði Afturelding tryggt sér nauman sigur 31-33 og sæti áfram í undanúrslit. Selfyssingar áttu frábæran leik og voru grátlega nærri því að tryggja sér oddaleik í Mosfellsbæ.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Einar Sverrisson var með 9 mörk, Teitur Örn Einarsson skoraði 8, Elvar Örn Jónsson 7, Hergeir Grímsson 5 og Guðjón Ágústson 2. Einar Ólafur Vilmundarson átti stórleik og varði átján skot.

Þetta er næstbesti árangur Selfoss frá upphafi í efstu deild karla og því getum við verið gríðarlega stolt af strákunum okkar en þeim var fyrir mót spáð falli af þjálfurum og fyrirliðum liðanna í deildinni. Að lokum eru það stuðningsmennirnir sem eru áttundi maðurinn í öllum leikjum strákanna og hafa stutt dyggilega við liðið í blíðu og stríðu á keppnistímabilinu.

---

Einar var markahæstur Selfyssinga.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/JÁE