Ómar og Elvar
Eins og alkunna er fer þessa dagana fram Heimsmeistaramótið U-19 handboltalandsliða í Jekaterínborg í Rússlandi.
Við Selfyssingar eigum þar fjóra fulltrúa, með liðinu spila þeir Elvar Örn Jónsson og Ómar Ingi Magnússon, þjálfari landsliðsins er Einar Guðmundsson yfirþjálfari Selfoss og sjúkraþjálfari liðsins er Jón Birgir Guðmundsson betur þekktur sem Jóndi eða the big man.
Liðinu hefur gengið mjög vel á mótinu, hefur unnið alla leiki sína sjö að tölu og er liðið því komið í undanúrslit mótsins þar sem strákarnir mæta Slóveníu kl. 10:30 á miðvikudaginn.
Við slóum á þráðinn til Elvars og Ómars þar sem þeir hvíldu lúin bein og voru að næra sig fyrir komandi átök.
Aðspurðir hvers vegna þeir hefðu náð þetta langt sögðust þeir hafa æft mjög lengi handbolta og "við erum búnir að leggja mikla vinnu í þetta sport og erum alltaf að leita að leiðum til að bæta okkur"
Maturinn að þeirra sögn mætti nú vera betri, "við erum örugglega búnir að borða svona 30 pastamáltíðir...en gymið er flott"
Þeir segjast einnig eyða allt að einum klukkutíma á dag í rússneskunám og reikna með að vera búnir að ná tungumálinu í lok ferðar, síðuritari efast ekki um þetta enda þekkir hann þá báða sem afbrags námsmenn.
Hvað undanúrslitaleikinn varðar segjast þeir félagar eiga séns "ef við náum að spila okkar leik".
Þeir segjast einnig vera mjög ánægðir með Einar og Jónda, eða með þeirra orðum "jaaaaa, klárlega besta teymið"
Að lokum vilja þeir Elvar og Ómar koma á framfæri þökkum heim til Íslands, "við finnum vel að þið eruð að fylgjast með og styðja okkur og við vonum svo sannarlega að við séum Selfyssingum til sóma".
MM