Handbolti Stefán-Þórir-og-Grímur
Handknattleiksdeild Selfoss hefur fengið Þóri Ólafsson fyrrum landsliðsmann í handbolta sem formann fagráðs handknattleiksdeildar Selfoss.
Þórir verður faglegur ráðgjafi stjórnar, þjálfurum beggja meistaraflokka til halds og trausts auk þess sem hann mun taka þátt í æfingum flokkanna.
Fagráð handknattleiksdeildar Selfoss er auk Þóris skipað þeim Einari Guðmundssyni yfirþjálfara Selfoss og landsliðsþjálfara U-19 og Vésteini Hafsteinssyni frjálsíþróttaþjálfara.
Þórir sem á farsælan feril sem atvinnumaður í handbolta að baki snýr nú til baka á Selfoss þar sem hann hóf feril sinn. Hann spilaði síðan með Haukum og varð Íslandsmeistari með þeim í þrígang á árunum 2003-2005.
Þórir fór síðan til Þýskalands og spilaði með TuS Nettelstedt-Lübbecke við góðan orðstír áður en hélt til Póllands árið 2011. Þar spilaði hann fyrir Vive Targi Kielce til ársins 2014 áður en hann kom heim að nýju og spilaði fyrir Stjörnuna á síðasta keppnistímabili.
Þórir hefur spilað 112 landsleiki fyrir Íslands hönd og skorað 277 mörk í þeim. Hans fyrsti landsleikur var á móti Bandaríkjunum í janúar 2001 en síðasti landsleikur hans var á móti Svartfjallalandi í nóvember 2014.
Þórir tók þátt í fimm stórmótum fyrir Íslands hönd: EM í Sviss 2006, HM í Svíþjóð 2011, EM í Serbíu 2012, HM á Spáni 2013 og EM í Danmörku 2014.
---
Þórir ásamt Grími Hergeirssyni stjórnarmanni t.h. og Stefáni Árnasyni þjálfara meistaraflokks t.v.
Ljósmynd: Umf. Selfoss