Þrettán Selfyssingar í landsliðum Íslands í hópfimleikum

Fimleikar - Landsliðsfólk
Fimleikar - Landsliðsfólk

Yfirþjálfarar landsliða og landsliðsþjálfarar í hópfimleikum hafa valið landsliðshópa fyrir Evrópumótið í hópfimleikum 2021 sem fer fram dagana 14.-17. apríl 2021 í Kaupmannahöfn í Danmörku.

Fimleikasamband Íslands mun senda fjögur lið á mótið, kvennalið og blandað lið fullorðinna og stúlknalið og blandað lið unglinga. Fimleikadeild Selfoss á þar ellefu fulltrúa, sjö stúlkur og fjóra drengi, sem valin hafa verið í blandað lið unglinga og stúlknalið Íslands.

Að auki á fimleikadeildin tvo landsliðsþjálfara í hópnum. Tanja Birgisdóttir mun þjálfa kvennalið Íslands og Mads Pind Lochmann Jensen blandað lið unglinga.

Fimleikadeild Selfoss er afar stolt af valinu og verður spennandi að fylgjast með þessum glæsilegu fulltrúum fimleikadeildarinnar á næstu mánuðum.

---

Á mynd með fréttinni má sjá þennan glæsilega hóp fimleikadeildar Selfoss sem hefur raðað sér í hóp þeirra bestu á landinu. Efri röð frá vinstri: Tanja, Mads, Daníel Már Stefánsson, Ævar Kári Eyþórsson, Bjarni Már Stefánsson og Sindri Snær Bjarnason. Neðri röð frá vinstri: Inga Jóna Þorbjörnsdóttir, Ása Kristín Jónsdóttir, Birta Sif Sævarsdóttir, Auður Helga Halldórsdóttir, Karolína Helga Jóhannsdóttir, Karítas Líf Sigurbjörnsdóttir og Evelyn Þóra Jósefsdóttir.
Ljósmynd Umf. Selfoss/Sigríður Ósk