Handbolti - Ísland U18
U18 ára landslið karla í handbolta undirbýr sig nú af kappi fyrir lokakeppni Evrópumóts landsliða sem fram fer í Króatíu í ágúst. Liðið æfir saman meirihluta sumarsins og tók m.a. þátt í æfingamóti í Lübeck í Þýskalandi á dögunum þar sem liðið endaði í þriðja sæti.
Þrír leikmenn liðsins eiga ættir að rekja á Selfoss. Örn Östenberg Vésteinsson sem leikur með Kristianstad í Svíþjóð en hann er sonur Vésteins Hafsteinssonar frjálsíþróttaþjálfara. Bjarni Ófeigur Valdimarsson sem leikur nú með Val en hann er sonur Valdimars Bjarnasonar verktaka frá Fjalli á Skeiðum og Teitur Örn Einarsson sem var lykilmaður í Selfossliðinu sem vann sér sæti í Olísdeildinni í vor. Þá er liðinu stýrt af Kristjáni Arasyni og Selfyssingnum Einari Guðmundssyni sem jafnframt er faðir Teits.
Liðið tapaði sínum fyrsta leik á móti Danmörku 28-34. Danirnir náðu fljótt undirtökum í leiknum og þrátt fyrir góðar tilraunir komust strákarnir ekki almennilega inn í leikinn. Teitur skoraði 5 af mörkum Íslands, Bjarni Valdimarsson 2 og Örn 1 mark.
Í öðrum leik sínum vann liðið Ísrael 42-39 í sannkölluðum markaleik. Strákarnir náðu fljótt undirtökum í leiknum og voru um stund komnir með 9 marka forskot en í lok leiks náðu Ísraelar með hjálp strákana að komast óþægilega nálægt þegar munurinn var kominn í tvö mörk. En svo sigldu þeir þessu heim eins og áður sagði 42-39. Aftur skoraði Teitur 5 mörk, Örn 3 og Bjarni 2.
Liðið tapaði naumlega gegn Þýskalandi í lokaleik mótsins. Leikurinn var spennandi þó Þjóðverjar hafi haft yfirhöndina mest allan tímann, strákarnir náðu að jafna seint í seinni hálfleik og þá virtist möguleiki vera til að síga frammúr en Þjóðverjar réttu sinn hlut og sigruðu að lokum 30-34. Bjarni skoraði 6 mörk en hvorki Teitur né Örn komustu á blað.
Það voru Þjóðverjar sem höfðu sigur á mótinu, unnu alla sína leiki. Danir lentu í 2. sæti, Ísland í 3.sæti og að lokum var það Ísrael sem rak lestina
eg/gj
---
Selfyssingarnir í U18 f.v. Örn, Bjarni og Teitur
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Einar Guðmundsson