Borgunarbikar 6
Úrslitaleikur Borgunarbikarsins fer fram á Laugardalsvelli laugardaginn 29. ágúst kl. 16:00 þegar Selfoss og Stjarnan mætast. Þetta er annað árið í röð sem liðin mætast í úrslitaleik en í fyrra var sett aðsóknarmet þegar 2.011 áhorfendur studdu liðin dyggilega. Nú ætlum við að bæta um betur og þú ætlar að hjálpa okkur að koma með bikarinn yfir brúna.
Fjölskylduhátíð á Hótel Selfoss
Það verður fjölskylduhátíð á Hótel Selfoss og Suðurland FM fyrir leik. Hátíðin hefst kl. 11 þegar kveikt verður á grillinu í hótelgarðinum og Suðurland FM hefur útsendingu. Það verða skemmtilegar uppákomur, Emmessís fyrir börnin, andlitsmálning og vörur fyrir stuðningsmenn. Leikmenn spjalla við stuðningsmenn og gefa eiginhandaráritanir.
Sætaferðir með Guðmundi Tyrfingssyni
Guðmundur Tyrfingsson býður öllum stuðningsmönnum fríar sætaferðir á leikinn og verður lagt af stað frá hótelinu stundvíslega kl. 14:00.
Skráning í sætaferðir fer fram á netfanginu umfs@umfs.is og í síma 482-2477.
Biðjum fólk vinsamlegast að athuga að börn eru á ábyrgð forráðamanna í rútunum.
Móttaka og bikarball
Um kl. 20:30 um kvöldið verður móttaka á vegum Sveitarfélagsins Árborgar á Hótel Selfossi þar sem við fögnum frábærum árangri stelpnanna. Eftir að liðið hefur snætt kvöldverð verður slegið upp bikarballi á hótelinu sem verður nánar auglýst á fésbókinni.
Styðjum stelpurnar
Stuðningsmönnum Selfoss stendur til boða að kaupa miða á leikinn beint af stelpunum okkar. Hægt er að kaupa miða á leikinn ásamt veitingum í VIP-stúku Laugardalsvallar fyrir leik og í hálfleik á kr. 5.000. Einungis 100 miðar eru í boði og í fyrra komust færri að en vildu.
Miðapantanir í síma 482-2477 og á netfanginu umfs@umfs.is.
Almenn miðasala fer fram á www.midi.is og er miðaverð kr. 1.500 fyrir 17 ára og eldri og kr. 500 fyrir 11-16 ára. KSÍ býður öllum börnum 10 ára og yngri á leikinn.
---
Áhorfendur studdu liðið dyggilega í fyrra og ætla að skapa enn betri stemningu í ár.
Ljósmynd: Myndasafn KSÍ.