Okkar menn í 2. flokki unnu FH í undanúrslitum hér á Selfossi í gærkvöld. Lokatölur urðu 25 - 24 eftir að gestirnir úr Hafnarfirði höfðu yfir 11 - 15 í leikhléi. FH-ingar komu betur stemmdir til leiks og voru fremri á öllum sviðum í fyrri hálfleik. Virtist sem spennustig okkar manna væri helst til hátt.
Það breytist hins vegar í síðari hálfleik og þegar 11 mínútur voru liðnar voru okkar menn búnir að jafna 17 - 17. Komust heimamenn svo yfir 20 - 18 en FH jafnaði aftur. Okkar menn komust í 25 - 22 en misstu þá tvo leikmenn af velli og FH gekk á lagið og átti kost á að jafna er þeir fengu vítakast eftir að leiktíma lauk, en Sverrir Andrésson varði það kast og tryggði sínu liði þar með ferð í Höllina. Sverrir varði 17 skot í síðari hálfleik og var hans framlag afar stórt. Varnarleikur liðsins var frábær síðustu 40 mínútur leiksins en þá fékk liðið aðeins 12 mörk á sig. Sóknin var stirð en kom til er leið á leikinn.
Nú er það úrslitaleikur er bíður strákanna næsta sunnudag kl. 19.00 í Laugardalshöllinni. Það var gríðarlega mikil stemning á leiknum í gær og mættu um 250 Selfyssingar til að hvetja sitt lið áfram. Nú er að vona að allir þeir mæti í Höllina og fleiri til. Selfyssingar hafa áður gert útivelli að sínum heimavelli með frábærum stuðningi, hví ekki þjóðarleikvanginn?
Mætum öll og áfram Selfoss!
Markaskor Selfoss:
Andri 9
Matthías 7
Einar 5
Janus 3
Árni Felix 1
Sverrir varði 23/1 skot