Handbolti - Árni Steinn og Einar Sverris
Handknattleiksmennirnir Árni Steinn Steinþórsson og Einar Sverrisson skrifuðu báðir undir tveggja ára samning við Selfoss á laugardag og munu leika með liðinu í Olís-deild karla á næsta tímabili.
Árni kemur til liðsins frá Sönderjyske í Danmörku þar sem hann hefur verið í eitt ár, en áður var hann í fjögur ár í röðum Hauka. Einar hefur verið á láni hjá ÍBV undanfarin tvö ár.
Þeir félagar voru í viðtali á vef Sunnlenska.is.
Fullkomið tækifæri fyrir Árna Stein
Árni Steinn fór í axlaraðgerð úti í Danmörku og það kom í ljós að ég verður frá í hálft ár eftir hana. „Hún er ástæðan fyrir því að ég ákvað að koma heim, fara í skólann, fá meðhöndlun hjá Jónda og ná mér alveg. Svo þegar Selfoss komst upp á miðvikudaginn þá breyttust plönin aðeins, og ég er mjög ánægður með að vera kominn aftur heim. Það er miðað við að ég geti verið kominn í fullan kontakt um miðjan október en ég get ekki sagt nákvæmlega til um það hvenær ég spila fyrsta leik. Það verður fyrir jól," segir Árni í samtali við sunnlenska.is og hann er spenntur fyrir því að klæðast vínrauðu treyjunni aftur.
„Eins og ég hugsaði þetta, það er ekkert víst að þetta tækifæri komi aftur og henti bæði mér og Selfossi á sama tíma, að liðið sé í úrvalsdeild. Það er bara fiðringur að spila aftur með Selfossi í úrvalsdeild." segir Árni sem fylgdist vel með einvíginu gegn Fjölni.
„Já, ég horfið á síðustu þrjá leikina sem þeir unnu. Það var gríðarleg stemmning og mig langaði til að fagna með þeim á miðvikudaginn. Það er gott starf hérna, góð stjórn og mikill metnaður og það er kominn tími á að Selfoss komi sér upp stöðugu úrvalsdeildarliði."
Árni lék með Selfyssingum þegar þeir fóru upp úr 1. deildinni síðast árið 2010 og lék með liðinu í efstu deild veturinn eftir en sleit þá krossband eftir sjö umferðir.
Erfið ákvörðun fyrir Einar
Koma Einars í Selfoss hafði ekki langan fyrirvara en hann segist virkilega glaður að geta klárað þessi félagaskipti með Árna Steini, vini sínum.
„Ég er mjög spenntur fyrir komandi leiktíð og mjög glaður að þetta hafi gengið í gegn. Það var stuttur fyrirvari á þessu og ég er búinn að eiga tvö frábær tímabil hjá ÍBV. Fyrir mér var þetta alltaf annað hvort ÍBV eða Selfoss. Ég kann ótrúlega vel að meta allt sem Eyjamenn hafa gert fyrir mig og ég hef bætt mig sem handboltamaður og lært mikið þar. Ég kveð þá með sorg og söknuði því ég vildi gjarnan vera þar áfram. Ég átti mjög erfitt með mig í dag og í gær en á endanum tel ég að ég hafi tekið rétta ákvörðun,“ sagði Einar í samtali við sunnlenska.is.
„Ég var mjög ánægður fyrir hönd Selfoss þegar liðið fór upp og það er ánægjulegt að liðið sé komið aftur í efstu deild þar sem það á heima. Það skiptir máli núna að fara ekki aftur niður, halda liðinu uppi. Það hlýtur að vera fyrsta markmið liðsins. Það er klárlega mikill munur á deildunum þannig að við verðum að leggja okkur alla fram.“
---
Ljósmynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl