Þorvaldur Gauti og Daníel Breki
Þrír íslendingar keppa á Ólympiuhátíð Evrópuæskunnar sem fram fer í Maribor í Slóveníu dagana 24.-29.júlí. Við í Frjálsíþróttadeild Selfoss erum mjög stolt af því að eiga tvo af þeim þremur keppendum sem valdir voru á Ólympíuhátíðina í ár. Þorvaldur Gauti Hafsteinsson keppir í 800m hlaupi og Daníel Breki Elvarsson keppir í spjótkasti og keppa þeir báðir mánudaginn 24.júlí. Þorvaldur Gauti hefur hraðast hlaupið 800m á 2:02,73 mín en það gerði hann á Vormóti HSK í júni og setti um leið HSK met í sínum aldursflokki (16-17 ára). Það verður spennandi að sjá hvað þessi stórefnilegi hlaupari gerir í keppni við þá bestu á sínum aldri í Evrópu. Daníel Breki hefur lengst kastað 700gr spjótinu 60,48m en það gerði hann í fyrra þegar hann sigraði glæsilega á Gautaborgarleikunum sem var einstaklega glæsilegt afrek. Hans besti árangur í spjótkasti er jafnframt HSK met í hans flokki (16-17 ára). Daníel Breki er mikill keppnismaður og frábært tækifæri fyrir þennan stórefnilega kastara að keppa við þá bestu í Evrópu í sínum aldursflokki. Rúnar Hjálmarsson, yfirþjálfari frjálsíþróttadeildar Selfoss, er jafnframt þjálfari allra íslensku keppandanna á mótinu.