Egill Blöndal
Selfyssingurinn Egill Blöndal og félagi hans Breki Bernharðsson tóku sig til og fluttu til Frakklands í byrjun febrúar. Samhliða fjarnámi munu þeir verða þar við æfingar til 8. apríl en þá fara þeir til Japans og verða þar í fimm vikur þar sem æft verður þrjá tíma á daga alla daga nema sunnudaga. Þeir koma heim til Íslands um miðjan maí.
Í París æfa þeir á hverjum degi þar sem eru allt að 150 manns á æfingunni og á meðal æfingafélaga þeirra eru verðlaunahafar frá stórmótum heimsins meðal annars heimsmeistaramótum.
Þeir munu einnig reyna að keppa sem mest þar sem þeir eru miðsvæðis í Evrópu og eru þegar búnir að keppa á European Judo Open í Oberwart og næsta verkefni hjá þeim er um næstu helgi þegar þeir munu keppa á European Judo Open í Prag. Að loknu móti verða þeir í viku í Tékklandi og æfa í öflugusta klúbbnum í Prag og halda síðan í tíu daga æfingabúðir OTC í Nymburk í Tékklandi og þaðan aftur til Parísar þar sem næstu verkefni verða ákveðin.
Egill í Oberwart
Egill var ekkert lakari í tökunum en Kínverjinn og virtist álíka sterkur líkamlega svo það var ekki ástæðan fyrir því að hann tapaði í Obenwart og ekkert skortir upp á keppnisskap og sjálfsstraust. Það eina sem vantar er það sem hann er að gera ákkurat núna með veru sinni í Frakklandi þ.e. að æfa jafn mikið og andstæðingarnir og keppa jafn mikið og þeir og ef hann heldur sig við efnið verður ekki langt að bíða þar til hann fer að vinna glímu og glímu og að lokum standa uppi sem sigurvegari.