Fjóla Signý með silfur og Eyrún Halla með brons á MÍ

Frjálsar MÍ fullorðinna 2016
Frjálsar MÍ fullorðinna 2016

Meistaramót Íslands fór fram í Laugardalshöll um liðna helgi og átti HSK/Selfoss tíu keppendur á mótinu. Niðurstaða helgarinnar var silfurverðlaun og bronsverðlaun auk átta persónlegra bætinga, fjögurra ársbætinga og þriggja HSK meta.

Fjóla Signý Hannesdóttir, Selfossi, bætti sinn besta árangur á árinu í 60 m. grindahlaupi og varð önnur. Hún keppti einnig í 60 m. hlaupi og bætti sinn ársbesta árangur er hún kom í mark á 8,23 sek. og vann sér rétt til að hlaupa í B-úrslitum.

Í kúluvarpi bætti Eyrún Halla Haraldsdóttir, Selfossi, sig um 25 cm. er hún varpaði kúlunni 11,94 m. og tók brons. Guðbjörg Hulda Sigurjónsdóttir, Suðra, bætti sig hressilega með því að kasta 10,19 m. og setja Íslandsmet í sínum fötlunarflokki. Ragnheiður Guðjónsdóttir, Hrunamönnum, sem er einungis 15 ára, bætti sig einnig kastaði 8,80 m. Harpa Svansdóttir, Selfossi, bætti sig hressilega í þrístökkinu er hún stökk 10,72 m. og var sjö sentimetrum frá bronssætinu.

Guðjón Baldur Ómarsson, Selfossi, keppti í 60 m. hlaupi og bætti sinn besta árangur um fimm sekúndubrot, hljóp á 7,88 sek. Hann bætti sig einnig í langstökkinu með 5,63 m. Þar stökk Sverrir Heiðar Davíðsson Selfossi, 5,87 m. og bætti sig innanhúss. Sverrir bætti sig einnig í kúluvarpi með kast upp á 10,01 m.

HSK/Selfoss varð í sjöunda sæti af ellefu liðum í stigakeppni félaga.

óg

---

Fjóla Signý með silfur fyrir 60 metra grindahlaup.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Ólafur Guðmundsson