Laugardaginn 4. febrúar sl. fór fram í Iðu og Vallaskóla minningarmót í knattspyrnu. Um kvöldið var svo slúttað frábæru móti með mögnuðum dansleik í Hvíta Húsinu, í ekta „Guðjóns Style". Mótið sem er firma- og hópakeppni er haldið af knattspyrnudeild Selfoss til minningar um frábæran félaga og vin Guðjón Ægi Sigurjónsson sem lést af slysförum langt um aldur fram.
Alls tóku 24 fyrirtæki og hópar þátt í mótinu og er þeim þakkað kærlega fyrir þátttökuna og stuðninginn við knattspyrnudeild Selfoss. Guðjónsdagurinn, eins og ákveðið hefur verið að kalla þennan viðburð, er orðinn árlegur og fastur punktur í viðburðadagatalinu og fer fram fyrstu helgina í febrúar ár hvert. Virkilega gaman var að sjá hve fyrirtækin og hóparnir lögðu mikið í búninga og alla umgjörð sína, sem eykur á skemmtanagildið og gleðina í kringum daginn. Okkur sem stóðum að mótinu langar að þakka öllum styrktaraðilum sem og fjölskyldu Guðjóns fyrir að gera þetta mögulegt, en margir lögðu hönd á plóg sem gerði þennan dag eftirminnilegan. Sérstakar þakkir fá Þórdís Erla og fjölskylda, Snyrtistofan Myrra, Svava Svavarsdóttir og Torfi Ragnar Sigurðsson, fyrir alla hjálpina við undirbúninginn, Guðjón Emilsson í Íþróttahúsinu Iðu, Bergur Sigurjónsson, Íþróttahúsi Vallaskóla, Björgvin Magnússon hjá Vífilfelli, Erna Dís hjá Mekka Wine and Spirits, Einar Björnsson og Hvíta Húsið, Njörður Steinarsson, Adolf I. Bragason, Karl Þór Þorvaldsson, Leifur Viðarsson, Herbert Viðarsson, Gunnar Ólason og Jóhann Bachmann, fyrir frábæra spilamennsku á ballinu, Ingunn í Pylsuvagninum, Vigdís Rós Gissurardóttir, fyrir myndatöku á mótinu, Már Másson, fyrir rödd mótsins og meistaraflokkar Selfoss karla og kvenna, fyrir þeirra framlag í mótinu.
Guðjónsdagurinn er svo sannarlega kominn til að vera. Undirbúningur fyrir næsta ár þegar hafinn, og verður Guðjónsdagurinn haldinn þann 2. febrúar 2013. Sjáumst þá. En þangað til, bestu kveðjur og þúsund þakkir til allra.
Sævar Þór Gíslason, mótsstjóri.