HSK/Selfoss í 5.sæti á MÍ 11-14 ára

Íslandsmeistarar í 4x200m boðhlaupi.  Frá vinstri Andri Fannar, Aron Logi, Kristján Karl og Sæþór Elvar
Íslandsmeistarar í 4x200m boðhlaupi. Frá vinstri Andri Fannar, Aron Logi, Kristján Karl og Sæþór Elvar

Iðkendur Frjálsíþróttadeildar Selfoss fjölmenntu helgina 8.-9.febrúar  á MÍ 11-14 ára sem haldið var í Kaplakrika.  Lið HSK/Selfoss hafnaði í 5 sæti í heildarstigakeppninni með 312,3 stig. Keppendur sem lenda í 10 efstu sætum í hverri grein ná í stig fyrir sitt félag. Lið ÍR sigraði með 494 stig. 11 ára stúlkur í HSK/Selfoss sigruðu sinn flokk og bæði 13 ára og 14 ára piltar urðu í þriðja sæti í sínum flokki.

12 ára flokkur: Hilmir Dreki Guðmundsson náði silfurverðlaunum í kúluvarpi er hann varpaði kúlunni 7,07m og hann krækti sér í  8.sæti í langstökki með 3,93m. Bjarkey Sigurðardóttir stökk yfir 1,15m í hástökki sem gaf 8.-9.sæti og auk þess náði hún 9.sæti í kúluvarpi er hún þeytti kúlunni 6,45m

13 ára flokkur: Sveit HSK/Selfoss varð Íslandsmeistari í 4x200m boðhlaupi á tímanum 2;11,83 mín. Þeir Andri Fannar Smárason og Kristján Karl Gunnarsson frá Selfossi voru í sveitinni ásamt þeim Aroni Loga og Sæþór Elvari frá Dímon. Andri Fannar Smárason varð fjórði í 60m grindahlaupi á tímanum 12,33 sek, hann stökk 8,98m í þrístökki og lenti í 6.sæti og að lokum stökk hann yfir 1,25m í hástökki og endaði í 10.-11.sæti. Kristján Karl Gunnarsson stökk 8,07m í þrístökki og endaði í 9.sæti. Þórhildur Salka Jónsdóttir varð í 5.sæti í 60m grind á tímanum 12,53s, í 600m hlaupi kom hún áttunda í mark á tímanum 2;07,55 mín og að lokum stökk hún 7,98m í þrístökki og lenti í 10.sæti.

14 ára flokkur: Magnús Tryggvi Birgisson stökk til silfurverðlauna í þrístökki er hann stökk 10,57m og hann stökk 5,10m í langstökki og fékk bronsverðlaun að launum.  Kúlunni kastaði hann 9,57m sem gaf fjórða sætið. Í 60m hlaupi kom hann níundi í mark á tímanum 8,57sek og að lokum varð hann tíundi í 60 m grindahlaupi á tímanum 11,72 sek. Birkir Aron Ársælsson varð í sjöunda sæti í hástökki er hann vippaði sér yfir 1,35m og hann varð tíundi í mark í 600m hlaupi á tímanum 2;06,55 mín. Hróbjartur Vigfússon vippaði sér yfir 1,30m í hástökki og náði 10.sæti. Ásta Kristín Ólafsdóttir kastaði kúlunni 8,85m og vann bronsverðlaun. Dagbjört Eva Hjaltadóttir kom tíunda í mark í 600m hlaupi á tímanum 2:18,95 mín og hún varð einnig tíunda í þrístökki er hún stökk 7,65m. Filippía Brynjarsdóttir kastaði kúlunni 8,02 m og náði 8.sæti og Elísabet Freyja Elvarsdóttir náði 9.sæti með 7,35m löngu kasti í sömu grein.

Magnús Tryggvi á palli í þrístökki en þar hlaut hann silfurverðlaun

Birkir Aron, Magnús Tryggvi, Hróbjartur og Brynjar Ingi stóðu sig vel á MÍ

Glæsilegir fulltrúar UMFS á Meistaramóti 11-14 ára