vis_logo-300dpi(rautt)
Nú styttist í að handboltavertíðin hefjist en miðvikudaginn 3. september hefst hið árlega Ragnarsmót sem Handknattleiksdeild Selfoss heldur í samstarfi við VÍS. Mótið fer fram í íþróttahúsi Vallaskóla og lýkur því með úrslitaleikjum laugardaginn 6. september.
Mótið er haldið til minningar um Ragnar Hjálmtýsson, sem lést ungur að árum í bílslysi, og er liður í undirbúningi liða og dómara fyrir komandi átök í vetur. Að venju taka sex lið þátt. Auk heimamanna eru það Olísdeildarlið HK, Stjörnunnar, Vals og Aftureldingar og 1. deildarlið Gróttu sem taka þátt í ár.
Mótið hefst sem fyrr segir á miðvikudag en fyrsti leikur Selfoss er á móti Stjörnunni í íþróttahúsi Vallaskóla á fimmtudag klukkan 20:00. Það verður gaman að sjá þessi lið kljást en eins og flestir muna var það Stjarnan sem sló Selfoss út í umspili í vor um laust sæti í úrvalsdeild.
Upplýsingar um leiki og tímasetningar
Ragnarsmótið er nú haldið í 25. skipti og hefur VÍS verið stuðningsaðili mótsins frá upphafi.
Handknattleiksdeild Selfoss hvetur alla til að koma við í Íþróttahúsi Vallaskóla dagana 3. – 6. september og fylgjast með strákunum okkar í undirbúningi fyrir komandi tímabil.