Selfyssingar féllu úr Pepsi-deildinni

knattspyrna-kristrun-rut-antonsdottir
knattspyrna-kristrun-rut-antonsdottir

Selfyssingar gerðu markalaust jafntefli á útivelli við Fylki í lokaumferð Pepsi-deildar kvenna sem fram fór á föstudag. Liðin voru í sætunum fyrir ofan fallsæti fyrir leikinn, en Selfoss var með jafn mörg stig og KR sem var í fallsæti og Fylkir hafði einu stigi meira en Selfoss og KR.

Selfyssingar stjórnuðu leiknum framan af og fimm sinnum small knötturinn í tréverkinu á marki Fylkiskvenna. Á 54. mínútu varð vendipunktur í leiknum þegar Sharla Passariello, framherja Selfoss, var vikið af velli fyrir afar heimskulegt brot á fyrirliða Fylkis. Manni færri voru Selfyssingum allar bjargir bannaðar á vellinum og endaði leikurinn markalaus.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Á sama tíma unnu KR-ingar á Akranesi sem þýddi að KR komst upp fyrir Selfoss sem féll úr Pepsi-deildinni.

Grátlegur endir á erfiðu tímabili hjá stelpunum okkar. Stefnan er sett á að fara beint upp í Pepsi-deild á ný og hefur Alfreð Elías Jóhannsson þegar verið ráðinn þjálfari liðsins fyrir næsta tímabil og verður Jóhann Ólafur Sigurðsson honum til aðstoðar.

---

Kristrún Rut Antonsdóttir var besti leikmaður Selfyssinga í sumar.
Ljósmynd: Fótbolti.net/Einar Ásgeirsson