Fimleikar Mix Íslandsmeistarar II
Blandað lið Selfoss gerði sér lítið fyrir og sigraði á Íslandsmótinu í hópfimleikum sem fram fór í Hafnarfirði um liðna helgi. Um leið nældu þau sér í deildarmeistaratitil sem stigahæsta liðið eftir keppnistímabilið. Þar með eru þau handhafar allra titla í hópfimleikum annað árið í röð þ.e. Íslands-, bikar- og deildarmeistarar.
Liðið hafði nokkra yfirburði í keppninni á föstudaginn þegar þau skiluðu hæstu einkunn allra liða á öllum áhöldum og unnu því með rúmlega þremur stigum. Í öðru sæti varð lið Stjörnunnar og í því þriðja lið Gerplu. Lið Selfyssinga sýndi æfingarnar á föstudaginn af miklu öryggi og glæsileika þó svo að bætt hafði verið í erfiðleika frá því fyrr á keppnistímabilinu og mátti sjá langar leiðir að þau voru staðráðin í að verja titilinn sinn frá því í fyrra.
Á laugardaginn fóru fram úrslit á áhöldum og var keppnin mjög spennandi. Liðin komu öll staðráðin í að ná titlum á áhöldum sem gerði keppnina mjög skemmtilega. Liðin voru öll með einhverja hnökra í æfingunum sínum en svo fór að hvert lið fékk einn titil. Selfoss tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn á dýnu með miklum yfirburðum. Á trampólíni var um lendingarkeppni að ræða og sigraði liðið sem var ekki með fall en það var lið Gerplu. Á gólfinu sigraði svo Stjarnan úr Garðabæ.
Nú er keppnistímabilinu lokið hjá meistaraflokkunum og við tekur undirbúningstímabil fyrir næsta tímabil en flestir úr Selfossliðinu stefna á Evrópumótið í hópfimleikum sem haldið verður í Slóveníu í október.
Heildarúrslit mótsins má finna á vef Fimleikasambandsins.
ob
---
Þrefaldir meistarar Selfoss í hópfimleikum.
Frábærar æfingar skiluðu öruggum sigri okkar fólks.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/IHH