Selfyssingar í stóru hlutverki með U-20

Handbolti - U20 Katrín Ósk, Hulda Dís, Perla Ruth og Elena Elísabet
Handbolti - U20 Katrín Ósk, Hulda Dís, Perla Ruth og Elena Elísabet

Fjórir Selfyssingar hafa undanfarnar vikur æft með íslenska U-20 ára landsliðinu sem tók þátt í undankeppni HM um seinustu helgi. Riðill Íslands var leikinn hér á landi og fóru leikirnir fram í Strandgötunni í Hafnarfirði en tvö efstu liðin úr riðlinum komust beint á HM í Rússlandi í sumar.

Þrjár af okkar stelpum tóku þátt um helgina en Perla Ruth Albertsdóttir varð að bíta í það súra epli að fylgjast með stöllum sínum úr stúkunni. Stelpurnar sem tóku þátt voru markvörðurinn Katrín Ósk Magnúsdóttir, Elena Elísabet Birgisdóttir og Hulda Dís Þrastardóttir.

Liðið vann öruggan sigur á Hvíta-Rússlandi í fyrsta leik sínum 32-21 en steinlá svo fyrir gríðarsterku liði Ungverja 21-39 á laugardag. Það var því ljóst að liðið varð að vinna Austurríki á sunnudag til að tryggja sér sæti á HM. Því miður náði liðið sér ekki á strik í leiknum og sat eftir með sárt ennið eftir 22-25 tap.

Stelpurnar öðluðust mikla reynslu með þátttöku sinni og voru Selfossi til sóma.

Myndatexti:

F.v. Katrín Ósk, Hulda Dís, Perla Ruth og Elena Elísabet.

Ljósmynd: Umf. Selfoss