80 ára afmælishátíð Umf. Selfoss (1)
Ungmennafélag Selfoss fagnaði 80 ára afmæli sínu með glæsilegri afmælishátíð laugardag 28. maí en félagið var stofnað 1. júní 1936. Á hátíðinni voru þeir Björn Ingi Gíslason og Sigurður Jónsson gerðir að heiðursfélögum Umf. Selfoss.
Björn Ingi er heiðursfélagi knattspyrnudeildar þar sem hann á að baki glæstan feril sem leikmaður, þjálfari, stjórnarmaður, formaður, foreldri og nú seinast sem afi á hliðarlínunni, ávallt að hvetja lið Selfoss áfram. Hann var einnig formaður Umf. Selfoss árin 1984-1989 og hefur alla tíð stutt dyggilega við starf félagsins.
Sigurður hefur komið víða við í starfi Umf. Selfoss og gegnt formennsku bæði í frjálsíþrótta- og knattspyrnudeildum félagsins. Hann var formaður Umf. Selfoss í tvígang, fyrst árin 1977-1979 og síðar tók hann við félaginu á viðkvæmum tímum árin 1999-2003 þegar mikil vinna var lögð í að snúa fjárhag félagsins til betri vegar.
Sex einstaklingar voru sæmdir gullmerki Umf. Selfoss.
Guðmundur Kr. Ingvarsson tók mikinn þátt í störfum sunddeildar hér á árum áður bæði sem keppandi og stjórnarmaður. Hann hefur sinnt ýmsum félagsmálstörfum innan félagsins og m.a. tekið þátt í störfum jólasveina- og þrettándanefndar í um 40 ár.
Hallur Halldórsson sat í stjórn handknattleiksdeildar í rúman áratug og hluta þess tíma gegndi hann formennsku deildarinnar. Hann var einn af aðalhvatmönnum þess að koma kvennaliði Selfoss á skrið þar sem hann hefur skilað fórnfúsu starfi. Hann átti sæti í aðalstjórn Umf. Selfoss 2012-2014 og hefur nú aftur tekið sæti í stjórn handknattleiksdeildarinnar.
Kristinn M. Bárðarson hefur tekið virkan þátt í starfi félagsins á ýmsum sviðum eins og t.d. blaðaútgáfu, störfum minjanefndar, kvikmyndagerð, afmælisnefnd o.fl. Hann hefur verið viðloðandi staf knattspyrnudeildar í áratugi og tekur vikulega þátt í getraunastarfi félagsins.
Ragnheiður Thorlacius átti sæti í stjórn fimleikadeildar um árabil og var m.a. formaður í nokkur ár. Hún hefur unnið mikið starf fyrir deildina í gegnum árin og er enn á fullu, mætir á mót, skipuleggur og tekur virkan þátt í fjáröflunum o.fl.
Svanur Ingvarsson tók mikinn þátt í störfum sunddeildar hér á árum áður bæði sem keppandi og stjórnarmaður. Hann hefur sinnt ýmsum félagsmálstörfum innan félagsins og m.a. stýrt störfum jólasveina- og þrettándanefndar í um 40 ár.
Þórarinn Ingólfsson lék um árabil með meistaraflokki Selfoss í knattspyrnu í kringum 1980 og á að baki vel yfir 200 meistaraflokksleiki. Hann þjálfaði jafnframt yngri flokka félagsins og einnig meistaraflokk. Þórarinn var starfsmaður knattspyrnudeildar um tíma og hefur tekið virkan þátt í starfi deildarinnar árum saman og tekur vikulega þátt í getraunastarfi félagsins.
Að lokum voru sjö einstaklingar sæmdir silfurmerki Umf. Selfoss fyrir fórnfúst og gott starf í þágu félagsins.
Bergur Guðmundsson er mikill áhugamaður um handknattleik og er ávallt tilbúinn þegar leitað er til hans um ýmis verkefni sem deildin þarf að sinna. Hann hefur verið formaður valnefndar um íþróttafólk Umf. Selfoss undanfarin ár og sinnt trúnaðarstörfum fyrir hönd Umf. Selfoss m.a. sem stjórnarmaður í HSK.
Bjarnheiður (Heiða) Ástgeirsdóttir hefur verið driffjöður í starfi og vexti taekwondodeildar Selfoss allt frá stofnun. Auk þess að æfa og þjálfa taekwondo hefur hún sinnt starfi gjaldkera í áraraðir. Hún hefur lagt nótt við dag til að efla deildina sem er ein stærsta taekwondodeild landsins.
Ingunn Guðjónsdóttir lét í vor af setu í fimleikadeild Selfoss eftir ellefu ár fórnfúst starf fyrir deildina en hún hefur á þeim tíma komið mikið að skipulagningu og framkvæmd á mótum sem félagið hefur haldið. Þá kom Ingunn einnig að starfi sunddeildar til fjölda ára áður en hún sneri sér að fimleikunum.
Jóhannes Óli Kjartansson er mikill áhugamaður um handknattleik og er ávallt tilbúinn þegar leitað er til hans um ýmis verkefni sem deildin þarf að sinna. Einn af frumkvöðlum að rekstri mötuneytis handknattleiksakademíunnar sem hefur fætt efnilegt íþróttafólk okkar Selfyssinga í áratug. Þá hefur hann einnig átt sæti í framkvæmdastjórn Umf. Selfoss.
Magnús Tryggvason hefur sinnt þjálfun hjá sunddeild Selfoss til fjölda ára og er nýkominn til starfa að nýju. Hann hefur einnig sinnt þjálfun hjá fleiri félögum á Suðurlandi auk þess sem hann hefur unnið með landsliðum Íslands í mörg ár.
Ólafur Guðmundsson hefur frá unga aldri verið virkur í starfi frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss. Hann byrjaði ungur hann að æfa frjálsíþróttir, hefur gert alla tíð síðan ásamt því að vera keppandi í áratugi. Enn þann dag í dag tekur hann reglulega þátt sem keppandi í mótum, bæði á héraðs- og landsvísu.
Ólafur hefur verið þjálfari hjá deildinni til margra ára og sér núna um þjálfun hjá meistaraflokki og hefur umsjón með frjálsíþróttaakademíunni sem starfrækt er í samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Hann er góð fyrirmynd og duglegur að gefa unga fólkinu góð ráð til að ná betri árangri.
Óskar Sigurðsson var formaður knattspyrnudeildar á mestu uppgangstímum deildarinnar hingað til. Undir formennsku hans unnu báðir meistaraflokkar deildarinnar sig upp í efstu deild ásamt því að Selfoss eignaðist landsliðsmenn í A-landsliðum karla og kvenna. Á sama tíma skilaði deildin góðu búi sem menn búa að um ókomin ár.
Auk þess voru sæmdir silfurmerkjum þrír einstaklingar sem hafa alla tíð stutt svo myndarlega við starfsemi Umf. Selfoss að það verður seint fullþakkað. Ávallt hafa félagsmenn okkar getað leitað til þeirra vitandi að fá góðar viðtökur. Þetta eru Ingunn Guðmundsdóttir í Pylsuvagninum og Guðni Andreasen og Björg Óskarsdóttir hjá Guðnabakaríi.
Á afmælinu bárust félaginu góðar gjafir og heillaóskir frá Sveitarfélaginu Árborg, UMFÍ og HSK en Guðríður Aadnegard formaður Skarphéðins sæmdi Svan Ingvarsson einnig gullmerki HSK fyrir ómetanlegt starf í þágu sambandsins.
Afmælisnefnd félagsins vann afar vel að undirbúningi hátíðarinnar undir stjórn Þóris Haraldssonar en auk hans sátu í nefndinni Björn Ingi Gíslason, Bogi Karlsson, Elínborg Gunnarsdóttir, Kristinn M. Bárðarson og Þóra Þórarinsdóttir. Einnig ber að þakka MS, SS, Guðnabakaríi, HP kökugerð, Pylsuvagninum, Karli úrsmiði, Sunnlenska fréttablaðinu, Vífilfelli, Sjafnarblóm og Stúdíó Stund fyrir að styðja vel við hátíðina ásamt öllum þeim sjálfboðaliðum sem komu með einum eða öðrum hætti að afmælinu.
---
Á myndinni með fréttinni eru f.v. Björn Ingi og Sigurður ásamt Guðmundi Kr. Jónssyni formanni Umf. Selfoss.
Á myndinni fyrir neðan eru heiðursverðlaunahafar á afmælishátíð Umf. Selfoss, standandi f.v. Þórarinn, Magnús, Bjarnheiður, Ingunn Guðjóns, Ingunn Guðmunds, Ragnheiður, Björg, Guðni, Bergur, Óskar og Guðmundur Kr. Sitjandi f.v. Hallur, Svanur, Guðmundur Kr. Jónsson formaður Umf. Selfoss, Björn Ingi, Sigurður, Hörður S. Óskarsson heiðursfélagi, Kristján S. Jónsson heiðursfélagi og Jóhannes Óli. Á myndina vantar Kristinn M. Bárðarson og Ólaf Guðmundsson.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss/IHH