Handbolti - Perla Ruth
Selfoss lagði FH að velli í lokaumferð Olís-deildarinnar í gær. Með sigrinum gulltryggði liðið sjöunda sætið í deildinni sem er besti árangur liðsins frá upphafi.
Selfyssingar voru ávallt skrefinu á undan FH í leiknum en náðu aldrei að hrista gestina almennilega af sér. Staðan í hálfleik var 16-14 og fór svo að heimakonur lönduðu sigri 26-23.
Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 11 mörk, Elena Elísabet Birgisdóttir og Adina Maria Ghidoarca 4 skoruðu 4 mörk hvor, Carmen Palamariu 3 og þær Perla Ruth Albertsdóttir og Kristrún Steinþórsdóttir 2 mörk hvor.
Lið Selfoss hlaut 27 stig í 26 leikjum í Olís-deildinni. Það sigraði í 13 leikjum, gerði eitt jafntefli og tapaði 12. Markatalan var jákvæð um 33 mörk en liðið skoraði 731 mark og fékk á sig 698.
Nú tekur við úrslitakeppni Olís-deildarinnar og liggur fyrir að Selfoss mætir Gróttu í fjórðungsúrslitum. Fyrsti leikurinn fer fram á Seltjarnarnes miðvikudaginn 13. apríl kl. 19:30 en á laugardag taka stelpurnar á móti Gróttu í íþróttahúsi Vallaskóla kl. 16:00. Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki í einvíginu kemst í undanúrslit en komi til oddaleiks verður hann á heimavelli Gróttu 18. apríl.
---
Perla Ruth Albertsdóttir í kröppum dansi á línunni.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Jóhannes Ásgeir Eiríksson