_MG_1459
Selfoss gerði góða ferð norður um helgina þegar stelpurnar unnu KA/Þór örugglega í Olís deildinni. Selfoss byrjaði leikinn vel, náði strax forystu og hélt henni allan leikinn. Þegar korter var liðið af leiknum var staðan 3-7 Selfoss í vil en mestur var munurinn átta mörk í fyrra hálfleik í stöðunni 4-12. Þegar flautað var til leikhlés leiddi Selfoss, 6-14.
Okkar stelpur héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik og má segja að KA/Þór hafi aldrei séð til sólar á móti öflugu liði Selfoss. Lokatölu 14-22 og gríðarlega mikilvæg stig í hús. Eftir þennan leik er Selfoss áfram í 9. sæti deildarinnar með þrettán stig, einu stigi á eftir HK. Aðeins þrjú stig skilja liðin í 6. til 9. sæti að og ljóst að baráttan er hörð og hvert stig skiptir máli til að komast í úrslitakeppnina nú í vor.
Markahæst í liði Selfoss var Hrafnhildur Hanna með sjö mörk. Kristrún Steinþórsdóttir skoraði fimm mörk, Perla Ruth og Carmen Palamariu fjögur hvor og Þuríður Guðjónsdóttir og Kara Rún skoruðu eitt mark hvor.
Áslaug Ýr Bragadóttir varði 13 skot í markinu og var með 50% markvörslu. Hildur Öder Einarsdóttir stóð í marki Selfoss síðustu mínúturnar og varði þrjú skot, var með 75% markvörslu. Spurning hvort þarna sé framtíðar markmaður á ferðinni en hingað til hefur hún ekki klæðst markmannstreyju, heldur spilað sem hornamaður.
Næsti leikur hjá stelpunum er laugardaginn 21. febrúar, á móti ÍBV. Leikurinn hefst klukkan 14:00 í Vallaskóla og ljóst að um hörku leik verður að ræða. Mætum á pallana og hvetjum okkar lið.
Á mynd: Hildur Öder, sem leysti Áslaugu Ýr af í markinu síðustu mínútur leiksins á móti KA/Þór