Stelpurnar í meistaraflokki hafa verið að spila vel í upphafi Íslandsmótsins og komið mörgum á óvart. Á laugardaginn mættu þær hins vegar einu af toppliðunum og því ljóst að verkefnið yrði mjög erfitt. Þrátt fyrir að andstæðingurinn væri öflugur sýndu stelpurnar allar sínar bestu hliðar í fyrri hálfleik og héldu í við ÍBV fram að hléinu. Sóknarleikurinn var frábær og stelpurnar sundurspiluðu sterka vörn gestanna hvað eftir annað og skoruðu 12 mörk þrátt fyrir góða markvörslu frá Florentinu í marki ÍBV. Varnarleikurinn var einnig mjög góður þegar þær komust til baka og skoruðu gestirnir mestan hluta marka sinna eftir hraða miðju eða hraðaupphlaup eftir markvörslur Florentinu. Staðan í hálfleik var 12-15 fyrir gestirna frá Eyjum.
Eins vel og fyrri hálfleikurinn var vel spilaður þá var sá síðari andstæðan. Munurinn jókst lítillega fyrstu 10 mín. síðari hálfleiks og það stefndi áfram í skemmtilegan leik, en þá ákvað Florentina hreinlega að loka markinu í stöðunni 15-20. Stelpurnar okkar skoruðu ekki mark það sem eftir var leiks eða í 20 mín. og með hverju skotinu sem hún varði brast vilji og hugrekki okkar leikmanna meira. Það var ekki það að þær næðu ekki að opna vörnina heldur varði hún bókstaflega allt sem kom á markið. Tvö vítaköst, línuskot, dauðafæri og virkilega góð skot að utan sem sum voru á leið í samskeytin. Fyrir vikið fjölgaði hraðaupphlaupunum og að lokum þá gaf varnarleikurinn sig líka. Síðustu 20 mín. fóru því 0-9 fyrir ÍBV og lokatölurnar 15-29.
Stelpurnar geta tekið fyrri hálfleikinn með sér í næstu verkefni og sett þann síðari í reynslubankann. Kristrún var markahæst ásamt Carmen með 4 mörk, Þuríður skoraði 3, Hanna 2 og svo Dagný og Sigrún 1 mark hvor. Markverðir Selfoss vörðu sitt hvor 5 skotin í sitt hvorum hálfleiknum. Florentina varði um 30 skot í marki ÍBV en markahæstar í þeirra liði voru Simona Vintale með 8, Ivana Mladenovic 7, Drífa Þorvaldsdóttir 6, Grigore Ggorgata 3 og Rakel Hlynsdóttir með 1 mark.
Næsti leikur er strax á þriðjudaginn en þá mæta stelpurnar liði Fylkis í Fylkishöllinni í Reykjavík kl. 19:30. Hvetjum við alla til þess að koma og styðja stelpurnar til dáða. Næsti leikur þar á eftir er heimaleikur gegn Íslandsmeisturum Vals í Vallaskóla laugardaginn 3. nóvember kl. 13:30.