Fimleikar - 3. flokkur 1 og 2
Bikarmót unglinga í hópfimleikum var haldið á Selfossi helgina 13.-14. febrúar. Fimleikadeild Selfoss sendi sjö lið á mótið og var árangur þeirra einkar glæsilegur.
Í 5. flokki kepptu tvö lið frá Selfossi. Stúlkurnar voru að keppa á sínu fyrsta móti og var spennan mikil. Liðin stóðu sig vel og enduðu í sjötta og þrettánda sæti.
Í 4. flokki átti Selfoss einnig tvö lið. Flokkurinn er fjölmennur en 24 lið tóku þátt. Stúlkurnar frá Selfossi sýndu glæsilegar æfingar og enduðu liðin í fjórða og tíunda sæti.
Í 3. flokki kepptu sautján lið og keppnin var hörð. Selfoss átti einnig tvö lið í þeim flokki. Selfoss 2 lenti í tíunda sæti en Selfoss 1 sigraði flokkinn og eru bikarmeistarar í 3. flokki 2021 eftir glæsilegar æfingar á öllum áhöldum.
Í flokki kk. yngri keppti einn hópur frá Selfossi. Strákarnir frá Selfossi sýndu flottar æfingar og sigruðu með yfirburðum og eru bikarmeistarar 2021.
Mótið fór vel fram og var gaman að fylgjast með börnunum fullum tilhlökkunar sýna æfingar sínar eftir rúmlega árs hlé frá keppni. Fimleikadeild Selfoss óskar öllum iðkendum sínum til hamingju með glæsilegan árangur á mótinu.
sóh
---
Á mynd með fréttinni eru stelpurnar í 3. flokki.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss