vertumemm
Íslenska unglingalandsliðið í flokki blandaðra liða og íslenska stúlknalandsliðið komust bæði áfram úr forkeppni á Evrópumótinu í hópfimleikum í gær. Úrslitakeppnin fer fram á föstudag og verður í beinni útsendingu á RÚV.
Íslenska unglingalandsliðið í flokki blandaðra liða, með Selfyssinginn Heklu Björt Birkisdóttur innanborðs, hóf keppni á Evrópumótinu.
Þrátt fyrir að fyrsta umferðin á dýnu hafi gengið ágætlega virtist vera stress í hópnum. Nokkur föll og ljóst að liðið þurfti að stilla sig af fyrir næstu umferð á trampólíni. Einkunn á dýnu var 16,200 og þó nokkuð rými fyrir bætingu.
Greinilegt var að liðinu tókst að stilla sig af fyrir umferðina á trampólíni. Liðið var vel stemmt og kláraði sínar æfingar með stæl með einkunn upp á 17,000. Gott fyrir sjálfstraustið fyrir gólfæfingarnar.
Gólfæfingarnar gengu vel og fengust öll móment gild. Einkunn upp á 20,216 skilaði liðinu í þriðja sæti á eftir Danmörku og Noregi og 0,216 á undan Svíþjóð og því spennandi keppni framundan á föstudag.
Íslenska stúlknaliðið, þar sem Selfyssingarnir Júlíana Hjaltadóttir og Aníta Sól Tyrfingsdóttir eiga sæti, átti sæti í úrslitum nokkuð víst fyrir forkeppnina og mesta spennan fólst í því hvernig frammistaða helstu keppinautanna yrði.
Liðið hóf keppni á trampólíni, gerði fá mistök og hlaut einkunnina 17,300 fyrir.
Á gólfi vantaði smá upp á og rúm fyrir bætingu þó að einkunn upp á 20,050 sé ekkert til að kvarta yfir.
Fyrir lokaumferðina á dýnu var ljóst að liðið væri komið í úrslit, nema til stórslyss kæmi og spurningin aðeins hvort liðinu tækist að ná fyrsta sætinu en til þess þurftu stúlkurnar að ná einkunninnni 15,505. Mistök á dýnunni þýddu mikinn frádrátt í framkvæmdareinkunn og heildareinkunn því aðeins 15,000 og liðið fer því inn í úrslitin í öðru sæti.
Á heildina litið flottur árangur hjá íslensku liðunum í gær. Tvö lið í keppni og tvö í úrslit. Við biðjum ekki um mikið meira.
Keppni í flokki fullorðinna hefst kl. 14:00 í dag en þar verða fimm Selfyssingar í eldlínunni. Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu á vef Mbl.is og Vísir.is.