Selfyssingar Íslandsmeistarar í mótokrossi

Elmar mótokross
Elmar mótokross

Lokaumferðir Íslandsmótsins í mótokrossi fóru fram 30. ágúst á Akranesi og 6. september í Bolaöldu.

Á Akranesi voru fimm keppendur mættir frá Umf. Selfoss og voru úrslit þessi. Elmar Darri Vilhelmsson hafnaði í öðru sæti í 85 cc flokki og Sindri Steinn Axelsson endaði fjórði í sama flokki. Gyða Dögg Heiðarsdóttir varð önnur í kvennaflokki, Ólafur Atli Helgason varð þriðji í unglingaflokki yngri og Heiðar Örn Sverrisson sigraði MX-40+ flokkinn.

Fjallað er ítarlega um keppnina á Akranesi á vefnum motocross.is.

Í Bolaöldu voru sjö keppendur mættir til leiks frá Umf. Selfoss og voru úrslit okkar fólks eftirfarandi. Gyða Dögg Heiðarsdóttir varð önnur í kvennaflokki, Ásta Petrea Hannesdóttir varð þriðja í 85 cc flokk kvenna og Ólafur Atli Helgason varð þriðji í unglingaflokki yngri. Axel Sigurðsson sigraði MX-B og sama gerði Heiðar Örn Sverrisson í MX-40+. Að lokum sigraði Elmar Darri Vilhelmsson 85 cc flokk og varð Sindri Steinn Axelsson fjórði í sama flokki ásamt því að Ármann Baldur Bragason endaði fjórði í 85 cc yngri.

Fjallað er um keppnina í Bolöldu og lokastöðun á Íslandsmótinu á vefnum motocross.is.

Íslandsmótinu er lokið í ár og hömpuðu liðsmenn Umf. Selfoss Íslandsmeistaratitlum í tveimur flokkum. Það voru þeir Elmar Darri Vilhelmsson í 85 cc flokki og Heiðar Örn Sverrisson í MX-40+. Þetta er í fyrsta sinn sem liðsmenn Mótokrossdeildar Umf. Selfoss vinna Íslandsmeistaratitil. Einnig er vert að geta þess að Gyða Dögg Heiðarsdóttir varð önnur til Íslandsmeistara kvenna og Sindri Steinn Axelsson endaði fjórði í 85 cc flokki.

Elmar Darri og Sindri Steinn hafa báðir komið upp í gegnum yngra starf mótokrossdeildarinnar sem hefur verið mjög vaxandi undanfarin ár og eigum við marga efnilega krakka sem gaman verður að horfa til á næstu árum.

Myndir frá keppninni má nálgast á fésbókarsíðu Umf. Selfiss

Í sumar hafa verið í gangi æfingar fyrir alla krakka sem vilja æfa mótokross en síðasta æfing sumarsins fór fram síðastliðinn fimmtudag. Stjórn mótokrossdeildarinnar vill að lokum þakka öllum velunnurum fyrir sumarið sem hefur verið mjög árangursríkt og mörg verðlaun skilað sér heim á Selfoss.

---

Elmar Darri hjólaði af mikilli festu í allt sumar og tryggði fyrsta Íslandsmeistaratitil Umf. Selfoss í mótokrossi.