J.J. mót Ármanns í frjálsum - Annað mótið af sex í mótaröð FRÍ.
Hreinn Heiðar og Halli Einars. sigruðu sínar greinar.
Fimmtudagskvöldið 24. maí s.l. fór fram svokallað JJ-mót Ármanns í frjálsum íþróttum á Laugardalsvellinum í rigningarúða og hægum sunnan vindi. Þetta var annað mótið í mótaröð FRÍ í sumar en mótin eru sex í það heila. HSK átti átta keppendur sem allir stóðu sig með sóma.
Hæst bar að Hreinn Heiðar Jóhannsson Laugdælum stökk allra karla hæst í hástökkinu með 1,85 m og Haraldur Einarsson Vöku sigraði í 100 m hlaupi karla á 11.76 sek. í tölvuverðum mótvindi. Þetta gefur þeim félögum fjögur stig hvorum í heildarstigakeppni mótaraðarinnar.
Dagur Fannar Magnússon Selfossi varð annar í sleggjukasti karla og bætti sinn persónulega árangur um tæpan hálfan metra með kasti upp á 47,00 m. í Kúluvarpi karla varð Ólafur Guðmundsson Laugdælum annar með 11,72 m. Í Spjótkasti kvenna átti HSK tvo keppendur. Jóhanna Herdís Sævarsdóttir Laugdælum varð fjórða með 32,31 m sem er lengra en á Vormóti HSK á dögunum og svo Guðrún Hulda Sigurjónsdóttir Suðra sem kastaði 19,98 m, varð sjötta og setti um leið íslandsmet í sínum fötlunarflokki. Flott hjá henni. Sólveig Helga Guðjónsdóttir og Edda Þorvaldsdóttir báðar frá Selfossi kepptu svo í 100 m hlaupi í miklum mótvindi þar sem Sólveig varð fjórða á 14,11 sek. og Edda fimmta á 14,31 sek. Sólveig átti svo síðasta orðið hjá HSK fólki á þessu móti er hún kom fjórða í mark í 300 m hlaupi kvenna á 44,93 sek., sem er ágætur tími miðað við vindinn.
Í lokin má svo geta þess að Hreinn Heiðar er með fullt hús stiga í stigakeppni mótaraðarinnar með 8 stig þar sem hann er búinn að sigra hástökkið á fyrstu tveim mótunum. Mest er hægt að fá 4 stig fyrir hvert mót innan mótaraðarinnar. Haraldur Einarsson og Ólafur Guðmundsson eru svo stutt á eftir með 6 stig hvor.
Ólafur Guðmundsson