Bikarmót í 2. og 3. flokki

3.flokkur A-deild
3.flokkur A-deild

Febrúar hefur verið stór mánuður í mótamálum og nú er þriðju mótahelginni lokið, en Bikarmót eldri flokka fór fram um helgina.

Selfoss átti þar fjögur lið, 1. flokk, 2. flokk mix og tvö lið í 3. flokki.
Í 3. flokki var keppt í A-deild og B-deild og átti Selfoss eitt lið í hvorri deild.
Stúlkurnar í 3. flokki A-deild kepptu á laugardaginn og mættu spenntar til leiks. Í A-deildinni eru 9 lið sem keppa og er raðað í deildir eftir úrslit á Haustmóti. Stúlkurnar áttu heilt yfir ágætan dag, þar sem þær prufuðu sig áfram með nýjar æfingar og gerðu það vel. Þær enduðu í 5. sæti og fengu mikið í reynslubankann.

Stúlkurnar í 3. flokki B-deild kepptu á sunnudaginn og kepptu þar í 8 liða deild. Þær mættu að sama skapi tilbúnar og spenntar til leiks og áttu góðan dag. Þær lentu í 6. sæti samanlagt og eru reynslunni ríkari eftir helgina. 3. flokkurinn okkar samanstendur af öflugum og duglegum stelpum sem eru í sífelldri framför og við hlökkum til að fylgjast með þeim blómstra!

Á sunnudeginum keppti einnig mixliðið okkar, í 2. flokki.
Liðið er því miður eina liðið sem er skráð í flokk blandaðra liða og samkeppnin því engin en það stoppar þau ekki frá því að leggja sig öll fram og vinna vel að markmiðunum sínum. Þau sýndu nýjar æfingar og eru í sífelldri framför - lið sem verður virkilega spennandi að fylgjast með áfram. Þau urðu bikarmeistarar í sínum flokki og voru að sjálfsögðu vel að því komin :D

 

Nú er smá pása í mótamálum hjá okkur og næstu mót ekki fyrr en í maí, ef frá er talið Norðurlandamót unglinga í Svíþjóð í apríl.
Iðkendurnir munu nýta þessa mótapásu vel í að æfa ný stökk, fínpússa gólfæfingar og njóta þess að æfa saman. 
Framtíðin er björt - til hamingju kæru iðkendur með helgina! :-)