Eftirtektarverður árangur júdódeildar

judo-adalfundur
judo-adalfundur

Aðalfundur júdódeildar Umf. Selfoss fór fram í gær, mánudaginn 27. febrúar. Á fundinum var farið yfir starfsemi deildarinnar á árinu auk þess sem fjórir einstaklingar voru sæmdir silfurmerki Umf. Selfoss.

Starf júdódeildarinnar var blómlegt á árinu og reksturinn í miklu jafnvægi við fyrri ár. Æfingar voru með hefðbundnum hætti líkt og undanfarin ár og fjöldi iðkenda svipaður. Árangur keppenda deildarinnar var afbragðsgóður en alls eignaðist deildin átta Íslandsmeistara og tvo Norðurlandameistara. Þar ber hæst að Þór Davíðsson varð Íslandsmeistari í -100 kg flokki auk þess sem Selfyssingar voru sigursælir á Íslandsmóti undir 21 árs.

Árangur Selfyssinga á Norðurlandamótinu sem fram fór í Noregi var afar eftirtektarverður en félagarnir Egill Blöndal, Grímur Ívarsson og Úlfur Þór Böðvarsson höfnuðu í efstu þremur sætunum í -90 kg flokki, undir 21 árs.

Af öðrum viðburðum má nefna að keppendur 10-15 ára fóru í æfinga- og keppnisferð á Budo Nord sem haldið var í Svíþjóð. Garðar Skaptason hlaut heiðursgráðu (3. dan) á uppskeruhátíð JSÍ og Bergur Pálsson hlaut Gullmerki JSÍ við sama tækifæri.

Þórdís Rakel Hansen var endurkjörin formaður deildarinnar. Margrét Jóhönnudóttir tók við embætti gjaldkera af Jóhönnu Þórhallsdóttur sem lét af störfum eftir áralangt farsælt starf. Olivera Ilic var endurkjörin ritari sem og meðstjórnendurnir Bergur Pálsson og Birgir Júlíus Sigursteinsson. Varamenn voru kjörnir Baldur Pálsson og Arnar Freyr Ólafsson

Í lok fundar veitti Guðmundur Kr. Jónsson, formaður Umf. Selfoss, þeim Baldri Pálssyni, Jóhönnu Þórhallsdóttur, Garðari Skaptasyni og Þórdísi Rakel Hansen silfurmerki Umf. Selfoss fyrir afar fórnfúst starf fyrir júdódeildina og félagið í heild sinni.

oi/gj

---

Frá vinstri eru Baldur, Jóhanna, Þórdís og Garðar ásamt Guðmundi formanni Umf. Selfoss.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Gissur Jónsson