20190314_210202
Selfyssingarnir Dagný María Pétursdóttir úr taekwondodeild Selfoss og Elvar Örn Jónsson úr handknattleiksdeild Selfoss eru íþróttakona og íþróttakarl Héraðssambandsins Skarphéðins fyrir árið 2018. Tilkynnt var um kjörið á héraðsþingi HSK sem fram fór í gærkvöldi á Laugalandi í Holtum.
Dagný María vann til gullverðlauna á Norðurlandamótinu 2018 og vann einnig til gullverðlauna á Nurtzi Open í Finnlandi. Hún er ein af sterkustu keppendum í kvennaflokki á Íslandi.
Elvar Örn er lykilleikmaður í toppliði Selfoss í Olís-deild karla í handbolta en liðið náði sínum besta árangri í deildarkeppni á árinu, lék í undanúrslitum Íslandsmótsins og tók þátt í Evrópukeppni. Elvar Örn hefur á árinu stimplað sig inn sem byrjunarliðsmaður hjá íslenska landsliðinu ásamt því að vera valinn besti leikmaður Olís-deildarinnar á síðustu leiktíð.
Aðrir tilnefndir í kjörinu voru:
Akstursíþróttir: Atli Jamil Ásgeirsson, Torfæruklúbbi Suðurlands.
Blak: Ragnheiður Eiríksdóttir, Hamri og Hilmar Sigurjónsson, Hamri.
Frjálsar íþróttir:Hulda Sigurjónsdóttir, Suðra og Kristinn Þór Kristinsson, Selfoss.
Íþróttir fatlaðra: Hulda Sigurjónsdóttir, Suðra og Bjarni Friðrik Ófeigsson, Suðra.
Golf: Heiðrún Anna Hlynsdóttir, GOS og Andri Már Óskarsson, GHR.
Glíma: Jana Lind Ellertsdóttir, Garpi og Jón Gunnþór Þorsteinsson, Þjótanda.
Handknattleikur: Perla Ruth Albertsdóttir, Selfossi.
Hestaíþróttir: Katrín Eva Grétarsdóttir, Háfeta og Sigurður Sigurðarson, Geysi.
Júdó: Egill Blöndal, Selfossi.
Knattspyrna: Magdalena Anna Reimus, Selfossi og Guðmundur Axel Hilmarsson, Selfossi.
Körfubolti: Helga Sóley Heiðarsdóttir, Hamri og Halldór Garðar Hermannsson, Þór.
Motocross: Gyða Dögg Heiðarsdóttir, Selfossi.
Skotíþróttir: Helga Jóhannsdóttir, SFS og Hákon Þór Svavarsson, SFS.
Taekwondo: Þorsteinn Ragnar Guðnason, Selfossi.
---
Á mynd með frétt eru Elvar Örn og Daníel Jens Pétursson sem tók við verðlaununum fyrir hönd Dagnýjar Maríu sem er við nám í Danmörku.
Á mynd fyrir neðan eru Elvar Örn og Daníel Jens ásamt Guðmundi Kr. Jónssyni heiðursformanni HSK og Guðríði Aadnegard formanni HSK sem afhentu verðlaunin.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Gissur Jónsson