Fyrsta mark Viðars Arnar fyrir landsliðið

Viðar Örn á æfingu Selfoss
Viðar Örn á æfingu Selfoss

Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson skoraði sitt fyrsta mark fyrir íslenska landsliðið í knattspyrnu á laugardag þegar Ísland tapaði 2-1 fyrir Sameinuðu arabísku furstadæmunum í vináttuleik í Dubai. Frá þessu er greint á vef Sunnlenska.is.

Viðar var í byrjunarliðinu en var skipt af velli á 71. mínútu. Hann átti fínan leik í fremstu víglínu Íslands og skallaði boltann meðal annars í þverslána strax á þriðju mínútu leiksins. Tíu mínútum síðar kom hann Íslandi í 0-1 með góðum skalla eftir fyrirgjöf Andrésar Más Jóhannssonar.

Furstarnir jöfnuðu metin á 25. mínútu og tryggðu sér svo sigurinn með marki á 48. mínútu.

Viðar Örn var einnig í byrjunarliðinu þegar Ísland sigraði Finnland 1-0 síðastliðinn miðvikudag í vináttuleik í Abu Dhabi. Viðar lék fyrri hálfleikinn en hafði úr litlu að moða í framlínunni.

Næsti vináttuleikur landsliðsins verður útileikur gegn Bandaríkjunum í Kaliforníu þann 31. janúar næstkomandi. Endanlegur leikmannahópur Íslands fyrir þann leik hefur ekki verið tilkynntur en Guðmundur Þórarinsson er meðal þeirra sem þegar hefur verið valinn í hópinn.

---

Viðar Örn kíkti á æfingu á Selfossi í haust.19