Fyrsta tap Kórdrengja kom á Selfossi

Danijel Majkic
Danijel Majkic

Það var sannkallaður stórleikur þegar Selfoss tók á móti Kórdrengjum í 2. deildinni í kvöld.  Leikið var á JÁVERK-vellinum á Selfossi og segja má að veðrið hafi leikið við vallargesti.

Jafnræði var með liðinum í upphafi leiks og skiptust liðin á að halda boltanum.  Hægt og rólega tóku Kórdrengir völdin og sköpuðu sér nokkur mjög hættuleg færi.  Vörn Selfyssinga stóð þó af sér áhlaupið og markalaust var þegar flautað var til hálfleiks.

Það var ekki fyrr en á 83. mínútu sem að eina markið kom og það gerði Danijel Majkic, leikmaður Selfoss, með frábæru skoti fyrir utan teig. Kórdrengir sóttu hart að marki Selfyssinga síðustu mínútur leiksins en náðu ekki að koma inn jöfnunarmarki. 

Með sigrinum fer Selfoss upp í fjórða sæti deildarinnar með þrettán stig, jafnt liðinu sem er í þriðja sæti. Næsti leikur Selfyssinga er á sunnudag gegn KF á Ólafsfjarðarvelli.  Eftir þann leik kemur smá hlé á deildinni áður en liðið tekur á móti ÍR þriðjudaginn 4. ágúst. 


Danijel Majkic kann vel við sig í blíðunni á Selfossi og skoraði sigurmarkið í kvöld.