3. flokkur 1
Helgina 10. - 11. nóvember síðastliðinn fór haustmótið í hópfimleikum fram. Selfoss sendi sex lið til keppni en á þessu móti er liðunum raðað niður í styrkleikadeildir fyrir mót vetrarins.
Á laugardeginum keppti 4. flokkur og átti Selfoss fjögur lið þar. 4. flokkur 1 átti þar stórgott mót og hafnaði í 2. sæti, aðeins 0,045 stigum á eftir 1. sætinu, sem er eins lítill munur og það getur orðið. Þær keppa því í A-deild í vetur, um Bikar- og Íslandsmeistaratitil. Selfoss 3 varð í 11. sæti af 26 liðum og Selfoss 2 endaði rétt á eftir þeim, í 12. sæti en bæði þau lið raðast í B-deild fyrir veturinn. Selfoss 4 lenti í 19. sæti og raðaðist þar með í C-deildina. Skemmtilegur dagur hjá þessum ungu og efnilegu stelpum, til hamingju með mótið allar saman!
Á sunnudeginum fór seinni hluti mótsins fram, en þá keppti 21 lið frá tólf félögum, í 3. flokki. Selfoss sendi tvö lið til leiks og endaði Selfoss 1 í 4. sæti og keppir þá í A-deild í vetur. Selfoss 3 lenti í 14. sæti og raðast í B-deildina í vetur. Til hamingju með árangurinn, stelpur!
Seinni hluti haustmótsins fer fram laugardaginn 17. nóvember en þar keppa þrjú lið frá Selfossi.