Frjálsar - Bikarkeppni FRÍ Kristinn og Agnes
Sjö lið tóku þátt í bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands sem fór fram í Laugardalshöll laugardaginn 11. mars. HSK/Selfoss sendi efnilegt lið til keppni sem samanstóð af reynsluboltum í bland við unga og mjög efnilega frjálsíþróttamenn sem öll stóðu sig mjög vel. Afrakstur dagsins voru tveir bikarmeistaratitlar og eitt brons ásamt fullt af fjórðu og fimmtu sætum. Tvö mótsmet voru sett af keppendum HSK, fjögur HSK-met ásamt félagametum og persónulegum bætingum. Liðið hafnaði að lokum í fimmta sæti bikarkeppninnar.
HSK/Selfoss átti sigurvegara í bæði 1500 m hlaupi kvenna og karla. Agnes Erlingsdóttir Laugdælum sigraði kvennahlaupið með yfirburðum, hljóp frábærlega og kom í mark á mótsmeti 4:40,39 mín. og bætti 20 ára gamalt HSK-met um rúmar þrettán sekúndur. Selfyssingurinn Kristinn Þór Kristinsson sigraði karlahlaupið einnig með yfirburðum og hljóp á nýju mótsmeti 3:56,97 mínútum sem er tæpri sekúndu frá rúmlega tveggja ára gömlu HSK-meti hans.
Hin unga og efnilega Eva María Baldursdóttir frá Selfossi stóð sig frábærlega í hástökkinu er hún tók brons með því að stökkva 1,63 m sem er nýtt HSK met í flokki 14 ára stúlkna og jöfnun á metinu í 16-17 ára flokknum. Guðrún Heiða Bjarnadóttir, Selfossi. mætti einbeitt til leiks í 60 m hlaupi kvenna en þar tók hún fjórða sætið í hörku keppni, hljóp á 8,06 sekúndum og bætti nokkurra daga gamalt met sitt sem var 8,09 sekúndur.
Þá bætti karlasveit HSK í 4x200 metra boðhlaupi HSK metið, hlupu vegalengdina á 1:39,84 mín en gamla metið átti sveit Laugdæla sem var 1:40,09 mín.
Þá má geta þess að hin 15 ára gamla Lára Björk Pétursdóttir, Laugdælum, bætti sig vel í 400 m hlaupi og Ástþór Jón Tryggvason, Selfossi, í 400 m hlaupi karla.
Allir keppendur stóðu sig mjög vel enda liðið ungt og verður án efa í keppni um bikarmeistaratitil félagsliða innan skamms tíma. Það sem einkenndi liðið þennan dag var samheldni, einbeiting og jákvæðni þar sem allir lögðu sig hundrað og fimmtíu prósent fram. Það eru bjartir tímar framundan í frjálsum á Suðurlandi.
Áfram HSK
Ólafur Guðmundsson þjálfari.
---
Á mynd með frétt eru bikarmeistarar í 1500 m hlaupi, Kristinn Þór og Agnes.
Fyrir neðan er lið HSK/Selfoss sem stóð sig vel á laugardag.
Ljósmynd: Umf. Selfoss