Kristinn Þór Íslandsmeistari í 800 metra hlaupi

10410651_10203550293012456_4003670148913584482_n
10410651_10203550293012456_4003670148913584482_n

Helgina 12.–13. júlí fór Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum fram á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði. Góð þátttaka var á mótinu í þokkalega veðri.  HSK/Selfoss sendi sjö keppendur til leiks sem allir stóðu sig með ágætum. Uppskera helgarinnar var eitt gull, eitt silfur og tvö brons ásamt því að eitt HSK met leit dagsins ljós.

Hápunktur okkar fólks var Íslandsmeistaratitill Kristins Þórs Kristinssonar úr Samhygð í 800 m hlaupi þar sem hann sigraði með miklum yfirburðum á tímanum 1:53,91. Kristinn tók svo silfurverðlaun í 400 m hlaupinu á öðrum besta tíma sínum utanhúss á ferlinum, 50,48 sek. Hinn 15 ára gamli

Styrmir Dan Steinunnarson úr Þór Þorlákshöfn stóð sig frábærlega í hástökkskeppni karla er hann stökk 1,93 m og hreppti bronsverðlaun þar. Þetta er 1 cm frá Íslandsmeti hans í 15 ára flokki pilta. Styrmir átti mjög góðar tilraunir við 1,96 m sem var sigurhæðin.

Í kringlukastskeppni kvenna átti HSK/Selfoss helming keppenda en okkar konur röðuðu sér í þriðja, fjórða, fimmta og sjöunda sætið. Thelma Björk Einarsdóttir frá Selfossi bætti sig persónulega, fór í fyrsta sinn yfir 32 m, kastaði 32,16 m og varð þriðja. Eyrún Halla Haraldsóttir Selfossi varð skammt á eftir í fjórða sæti og Guðrún Hulda Sigurjónsdóttir, Suðra varð fimmta. Jónína Guðný Jóhannsdóttir Selfossi varð sjöunda.

Deginum áður hafði Jónína Guðný kastað sleggjunni mjög vel er hún bætti sitt eigið HSK met í flokki 15 ára stúlkna með kasti upp á 29,35 m en gamla metið var 29,09 m frá í vor.

óg

---

Á myndinni er Thelma Björk Einarsdóttir með bronsverðlaunin sín fyrir kringlukast.
Mynd: Umf. Selfoss/Ólafur Guðmundsson