Magdalena besti leikmaður 1. deildar kvenna

Magdalena Anna Reimus - GKS
Magdalena Anna Reimus - GKS

Magdalena Anna Reimus, leikmaður Selfoss, var valin leikmaður ársins í 1. deild kvenna í knattspyrnu af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar. Selfoss á fjóra leikmenn í liði ársins. Það var knattspyrnuvefurinn Fótbolti.net sem stóð fyrir vali á liði keppnistímabilsins.

Magdalena Anna er uppalin hjá Hetti en gekk til liðs við Selfoss fyrir sumarið 2015. Hún hefur síðan verið í stóru hlutverki hjá liðinu og félög úr efstu deild renndu til hennar hýru auga eftir að Selfoss féll úr Pepsi-deildinni síðastliðið haust. Magdalena hélt trausti við liðið sitt og átti frábært tímabil í 1. deildinni, spilaði alla 18 leiki Selfoss og skoraði í þeim 10 mörk.

Auk Magdalenu eru Selfyssingarnir í liði ársins þær Anna María Friðgeirsdóttir, Alexis C. Rossi og Kristrún Rut Antonsdóttir.

Lestu meira um málið á Sunnlenska.is og viðtal við Magdalenu má finna á vef Fótbolta.net.

---

Magdalena í leik með Selfyssingum í sumar.
Ljósmynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl