Á myndinni eru 16 af 19 iðkendum Frjálsíþróttaakademíunar sem starfrækt er í FSu
Frjálsíþróttaakademían á Selfossi var stofnuð haustið 2015 og hefur starfað sleitulaust síðan. Iðkendur akademíunnar hafa verið á bilinu 11-21, yfirleitt fleiri á haustönn. Það er val nemenda hvort þeir velji að stunda nám í Frjálsíþróttaakademíunni en alls eru í boði sex áfangar, samtals 30 einingar, ef nemendur klára allar annirnar.
Meirihluti iðkenda hafa á starfstíma akademínunar æft frjálsar íþróttir víðsvegar á Suðurlandi (HSK svæðinu). Þá hafa margir iðkendur orðið Íslandsmeistarar í sínum aldursflokkum og fullorðinsflokkum og keppt í Bikarkeppni Frjálsþróttasambandsins með úrvalsliði HSK. Af þeim nemendum sem hafa verið í Frjálsíþróttaakademíunni frá upphafi starfstíma hennar hefur fjöldi verið valinn í úrvalshópa Frjálsíþróttasambandsins (FRÍ), sem er nokkurskonar landsliðsúrtak. Nemendur akademíunnar hafa keppt með A-landsliði Íslands í fullorðinsflokki sem og í sínum aldursflokki.
Iðkendur akademíunnar geta æft endurgjaldslaust hjá meistarahópi Frjálsíþróttadeildarinnar. Þeir sem nýta sér allar æfingar sem í boði eru geta þannig náð tveimur æfingum á skólatíma og fimm æfingum með meistarahópi Frjálsíþróttadeildar Selfoss.
Á haustönn 2023 eru 19 nemendur skráðir í akademíuna sem æfir 2x í viku í Lindexhöllinni undir stjórn Rúnars Hjálmarssonar sem einnig er yfirþjálfari Frjálsíþróttadeildar Selfoss. Akademían á stóran þátt í því hversu öflugt unglingastarfið hefur verið síðustu ár á svæðinu og nægir þar að nefna að HSK/Selfoss er núverandi Íslandsmeistari félagsliða í aldurflokknum 15-22 ára og 11 iðkendur deildarinnar náðu um daginn lágmarki í Úrvalshóp FRÍ.