Þuríður Guðjónsdóttir
Selfoss tók á móti Gróttu í Olís deildinni á laugardag. Eftir ágæta byrjun Selfyssinga dró í sundur með liðunum undir lok fyrri hálfleiks og voru Gróttustelpur fjórum mörkum yfir í hálfleik 9-13. Selfyssingar náðu ekki að klóra í bakkann í seinni hálfleik og jók Grótta muninn jafnt og þétt allt til leiksloka. Lokatölur urðu 18-27.
Atkvæðamest í liði Selfoss var Þuríður Guðjónsdóttir með 6 mörk. Dagmar Öder Einarsdóttir skoraði 3, Kara Rún Árnadóttir 2, Hulda Dís Þrastardóttir 2, Thelma Sif Kristjánsdóttir 2, Hildur Öder Einarsdóttir 2, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 1.
Áslaug Ýr Bragadóttir varði 9 skot í marki Selfoss og Katrín Ósk Magnúsdóttir 3 skot.
Bendum á ágæta umfjöllun Sunnlenska.is um leikinn.
Selfoss er í 8. sæti deildarinnar með 4 stig að loknum fimm umferðum. Næsti leikur stelpnanna er á heimavelli gegn Haukum nk. laugardag kl. 13:30.