Skráning hafin á Unglingalandsmót UMFÍ

unglingalandsmotsmerki_-_tomt1
unglingalandsmotsmerki_-_tomt1

Opnað hefur verið fyrir skráningu á hið árlega Unglingalandsmót UMFÍ sem verður samkvæmt venju um verslunarmannahelgina. Mótið verður að þessu sinni í Þorlákshöfn dagana 2.-5. ágúst. Mótshaldari er Héraðsambandið Skarphéðinn.

Eins og landsmenn vita er Unglingalandsmót UMFÍ sannkölluð fjölskylduhátíð. Boðið er upp á 22 keppnisgreinar fyrir 11-18 ára börn og ungmenni. Allir á þessum aldri geta skráð sig til leiks. Ekki er skilyrði að vera í ungmenna- eða íþróttafélagi.

Þétt dagskrá er alla mótsdagana og skemmtun á kvöldin þar sem margt af þekktasta tónlistarfólki landsins kemur fram. Þegar hafa boðað komu sína Jói Pé og Króli, Herra Hnetusmjör og Flóni, Jón Jónsson og hljómsveitin Between Mountains, Young Karin, Míó Tríó, DJ Dóra Júlía og fleiri. Hin landsþekkta Lúðrasveit Þorlákshafnar kemur svo að sjálfsögðu fram á mótinu.

Meiri fjölbreytni en áður

Á dagskránni eru helstu greinar, knattspyrna, körfubolti og frjálsar. En margar nýjungar eru líka kynntar til leiks í Þorlákshöfn.

„Það er meiri fjölbreytni á Unglingalandsmótinu nú en nokkru sinni áður og veitir það öllum þátttakendum tækifæri til að prófa fullt að spennandi greinum. Á meðal nýjunganna sem við kynnum til leiks eru greinar sem gera allri fjölskyldunni kleift að taka þátt og keppt öll saman,“ segir Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ.

Á meðal nýrra greina nú er keppni í dorgveiði og sandkastalagerð. Keppni í kökuskreytingum er líka á dagskránni. Þetta verður í annað sinn sem keppt er í kökuskreytingum á Unglingalandsmóti UMFÍ. Fyrst var keppt í henni á Egilsstöðum í fyrra og var það með vinsælustu greininunum.

„Við sáum það á Egilsstöðum að þátttakendur á Unglingalandsmótum vilja fjölbreytni og nýjungar. Við svörum að sjálfsögðu því kalli,“ bætir Ómar Bragi við og segir greinarnar flestar til þess fallnar að vinir og vinkonur geti búið til lið saman.

Skráningargjald á Unglingalandsmót UMFÍ er 7.000 krónur og geta allir sem vilja skráð sig til leiks. Greiða þarf gjaldið til að geta klárað skráningu. Aðrir mótsgestir greiða ekkert gjald en geta þó tekið þátt í fjölbreyttri afþreyingu og verkefnum sem boðið er upp á. Skráning og greiðsla fer í gegnum greiðsluþjónustukerfið NORA

Ítarlegri upplýsingar, dagskráin og skráning er á slóðinni www.ulm.is.