Guðmundur Hólmar skoraði 5 mörk í kvöld.
Mynd ÁÞG
Strákarnir töpuðu stórt gegn Stjörnunni í kvöld, 22-35, í Olísdeild karla.
Jafnræði var með liðunum í kvöld á fyrstu mínútunum. Skiptust liðin á að skora og eftir 22 mínútur jafnaði Einar Sverrisson leikinn í 10-10. Síðustu 8 mínútur fyrri hálfleiks voru svo markalausar af hálfu Selfoss liðsins og fóru Stjörnumenn með 5 marka forskot inn í hálfleikinn 10-15.
Stjörnumenn héldu áfram að hamra járnið í seinni hálfleik og eftir 40 mínútur var staðan orðin 13-23. Á 42 mínútu fékk Einar Sverrisson svo beint rautt spjald fyrir litlar sakir. Ekki var það til að hjálpa Selfyssingum í erfiðum leik. Stjörnumenn héldu áfram og voru mun sterkari aðilinn. Lokatölur í leiknum urðu 22-35 og fara Stjörnumenn með 2 stig heim.
Strákarnir eru áfram með 9 stig og sitja í 7 sæti eftir 9 leiki. Næsti leikur Selfoss í Olísdeild karla verður á útivelli gegn Aftureldingu í pizzabænum mánudaginn, 21. nóvember klukkan 19:30. Við fjölmennum þangað og styðjum við bakið á strákunum okkar eins og við erum þekkt fyrir.
Mörk Selfoss: Ísak Gústafsson 5, Guðmundur Hólmar Helgason 5, Einar Sverrisson 4, Atli Ævar Ingólfsson 3, Hannes Höskuldsson 3, Sæþór Atlason 1, Tryggvi Sigurberg Traustason 1.
Varin skot: Vilius Rasimas 13 (32%) og Jón Þórarinn Þorsteinsson 1 (13%).