Tap gegn sterkum Frömurum

Elín Krista Júlí 2020
Elín Krista Júlí 2020

Stúlkurnar lutu í lægra haldi gegn sterku liði Fram U í Grill 66 deild kvenna í kvöld. 

Ljóst var strax frá byrjun að topplið Framara hugðist ekki ætla að taka neina fanga.  Þær byrjuðu leikinn í maður á mann vörn og tókst að slá Selfyssinga út af laginu.  Með þessu náðu þær fimm marka forystu, 1-6 eftir aðeins tíu mínútur.  Örn, þjálfari Selfoss, tók leikhlé þar sem honum tókst að berja baráttuandann í liðið.  Selfyssingar náðu góðri viðspyrnu og voru búnar að jafna leikinn, 7-7, átta mínútum síðar.  Meira jafnvægi var í leiknum fram að hálfleik þar sem Fram leiddi með þrem mörkum, 9-12.  Framarar byrjuðu síðari hálfleik af meiri ákveðni og juku forystu sína hægt en örugglega þar til á lokamínútunum.  Lokatölur 19-29.

Mörk Selfoss:  Elín Krista Sigurðardóttir 5, Katla Björg Ómarsdóttir 4/3, Rakel Guðjónsdóttir 3, Agnes Sigurðardóttir 2, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 2, Ivana Raičković 2, Sólveig Ása Brynjarsdóttir 1.

Varin skot: Áslaug Ýr Bragadóttir 12/1 (29%)

Næsti leikur hjá stelpunum er gegn sameinuðu liði Fjölnis og Fylkis á sunnudaginn næstkomandi, í Dalhúsum kl. 13:30.

---

Elín Krista var markahæst í kvöld með 5 mörk.
Umf. Selfoss / ÁÞG