Fimleikar - 1. flokkur bikarmeistarar 2021
Um helgina fór bikarmót í hópfimleikum fram í Ásgarði í Garðabæ. Fimleikadeild Selfoss átti þrjú lið á mótinu.
Lið KK eldri keppti á föstudag og stóðu strákarnir, sem eru á aldrinum 10-14 ára, sig vel á mótinu og uppskáru fjórða sæti.
Á hvítasunnudag kepptu 1. flokkur stúlkna og 1. flokkur mix og gerðu báðir hópar sér lítið fyrir og sigruðu sinn flokk og eru því bikarmeistarar 2021.
Mix liðið er afar ungt og efnilegt, skipað stúlkum og drengjum á aldrinum 13-18 ára. Liðið sigraði lið Hattar frá Egilsstöðum með 0,8 stiga mun. Þau hafa bætt töluvert við erfiðleika sinn frá síðasta tímabili og er gaman að sjá hvað þau hafa vaxið.
Stúlknalið Selfoss sýndi mikinn karakter í afar harðri keppni. Þær sýndu glæsilegar æfingar á öllum áhöldum og uppskáru sigur, 0,95 stigum á undan liði Gerplu sem hafnaði í öðru sæti. Liðið er skipað stúlkum á aldrinum 14-17 ára. Þetta er í annað skiptið sem 1. flokkur stúlkna frá Selfossi hlýtur bikarmeistaratitil en sá fyrri kom fyrir ellefu árum síðan og er því búið að bíða lengi eftir honum.
Titlarnir tveir eru stórsigur fyrir fimleikadeild Selfoss því þrátt fyrir aðstöðuleysi deildarinnar sem er farið að há starfinu allverulega er árangurinn eftirtektarverður.
Umf. Selfoss/sóh
---
Á mynd með fréttinni eru bikarmeistarar í 1. flokki.
Á mynd fyrir neðan eru strákarnir í KK eldri sem náðu góðum árangri.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss