Umf. Selfoss | Viðbrögð við samkomubanni

Selfoss_merki_nytt
Selfoss_merki_nytt

Í kjölfar ákvörðunar íslenskra yfirvalda að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur (samkomubann) frá og með miðnætti í kvöld, sunnudaginn 15. mars en halda þó áfram starfi leik- og grunnskóla, mun Umf. Selfoss endurskoða skipulag æfinga hjá öllum deildum félagsins næstu vikur. Samkvæmt upplýsingum frá íþróttahreyfingunni á Íslandi gilda sömu takmarkanir um íþróttastarf og settar eru um starfsemi í leik- og grunnskóla.

  • Af þessum sökum falla allar æfingar hjá félaginu niður á morgun, mánudaginn 16. mars.
  • Dagurinn verður notaður til að skipuleggja fyrirkomulag æfinga þannig að þær uppfylli skilyrði stjórnvalda gagnvart samkomubanni.
  • Nánari upplýsingar verða sendar til foreldra og forráðamanna síðdegis á morgun þar sem koma fram upplýsingar um æfingatíma og skipulag í kringum æfingar.
  • Leggur félagið ríka áherslu á að lokaákvörðun um að senda iðkendur á æfingar er ávallt undir hverju og einu foreldri/forráðamanni komið.

Aðalstjórn Umf. Selfoss hefur tekið þá ákvörðun að halda áfram æfingum hjá börnum og ungmennum innan deilda félaganna. Æfingar kunna þó að vera með breyttu formi og munu taka mið af leiðbeiningum og ákvörðunum stjórnvalda hverju sinni. Jafnframt verða gerðar ráðstafanir til að þrífa og sótthreinsa byggingar eftir hvern dag.

Félagið mun við útfærslu á æfingum og ákvarðanatöku um æfingahald ávallt fylgja leiðbeiningum og ákvörðunum stjórnvalda hverju sinni.

Ákvörðun þessi er tekin með hliðsjón af því að áfram verði hægt að halda úti starfi í leik- og grunnskólum. Vill félagið leggja sitt lóð á vogarskálar þess að sem minnst röskun verði á daglegu lífi barna og ungmenna sem stunda æfingar hjá deildum þess. Til að svo geti orðið telur félagið rétt að halda áfram að bjóða upp á þá þjónustu sem félagið veitir.

Við biðjum foreldra/forráðamenn að sýna því skilning á meðan farið er yfir stöðuna sem upp er komin. Jafnframt er rétt að upplýsa að ákvörðun um æfingahald og skipulag æfinga getur tekið breytingum með mjög stuttum fyrirvara.