Mfl. knattspyrnu og fimleikum
Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu er óðum að undirbúa komandi keppnistímabil í Pepsideildinni.
Undirbúningstímabilið er langt og strangt og nauðsynlegt að brjóta upp hefðbundnar æfingar til að stytta biðina eftir að komast á iðagrænt grasið. Liðið fer vikulega í jóga hjá Hildi Gestsdóttur til að auka liðleika og losa um spennuna. Óhætt er að segja að spennan brjótist út með ýmsum hætti hjá stelpunum.
Stelpurnar ásamt þjálfurunum, Gunnari Borgþórssyni og Jóhanni Bjarnasyni, hafa verið í mikilli og góðri samvinnu við aðrar deildir Umf. Selfoss.
Þannig hélt Gunnar fyrirlestur fyrir Títanhóp sunddeildarinnar á meðan stelpurnar fóru á afar stranga æfingu hjá Amöndu yfirþjálfara í sundi.
Haldin var sameiginleg fimleikaæfing meistaraflokka knattspyrnu og fimleika. Þar fóru knattspyrnukonur á kostum í kollhnísum og handahlaupum svo að eftir var tekið. Fimleikastelpurnar ætla að endurgjalda heimsóknina að loknu Norðurlandamótinu sem fram fer um miðjan apríl.
Í næstu viku fara stelpurnar á júdóæfingu hjá Bergi Pálssyni júdóþjálfara sem hefur tuskað þær til tvisvar sinnum áður í vetur.
Hápunktur undirbúningstímabilsins er að sjálfsögðu vikulöng æfingaferð til Spánar þann 15. apríl en fjáröflun hefur verið í gangi í allan vetur. Nokkur tonn af fiski, kartöflum, gulrótum, lakkrís, eldhúsrúllum og klósettpappír hefur verið seldur og á næstu dögum hefst sala á páskaeggjum.
Gunnar þjálfari er gífurlega ánægður með þessi samvinnuverkefni sem efli andann í liðinu og skapi góð tengsl á milli íþróttamanna á Selfossi. Til stóð að hvetja handboltastelpurnar á seinasta heimaleik þeirra í Olísdeildinni en því miður rakst hann á við leik gegn ÍBV í Lengjubikarnum í knattspyrnu. Í staðinn skora hann og Jói aðstoðarmaður hans á Basta og Örn handboltaþjálfara í fjórþraut þar sem hver keppandi leggur til eina keppnisgrein. „Ég sting þegar í stað upp á sleðadrætti á gervigrasinu" sagði Gunnar þéttur.
Hann sagði jafnframt spennandi tíma framundan hjá liðinu, margar stelpnanna æfa reglulega með landsliðum Íslands. „Það er mikill metnaður í gangi og gott hugarfar" segir Gunnar.