Mynd: Hafliði Breiðfjörð
Bæði meistaraflokkslið Selfoss voru í eldlínunni í gærkvöldi. Stelpurnar freistuðu þess að sækja farmiða í undanúrslit Mjólkurbikarsins þegar þær mættu Víking R. á meðan strákarnir gátu tyllt sér í þriðja sæti Lengjudeildarinnar með sigri á Þór A.
Selfyssingar komust yfir á Víkingsvelli eftir um tuttugu mínútna leik þegar Emelía Óskarsdóttir skoraði úr þröngu færi, frábærlega gert. Um var að ræða eina mark fyrri hálfleiksins. Víkingskonur komu sterkar út í síðari hálfleik og jöfnuðu leikinn eftir tæplega fimm mínútna leik í síðari hálfleik. Selfyssingar komust í fínar stöður en náðu ekki að reka endahnútinn á sóknir sínar. Sigurmarkið kom þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum og voru það heimakonur sem skoruðu þar. Niðurstaðan 2-1 tap og bikardraumurinn úti. Næsti leikur liðsins er gegn Stjörnunni á miðvikudagskvöldið næstkomandi á JÁVERK-vellinum þar sem mikið er undir.
Á Akureyri mættu strákarnir Þór. Heimamenn byrjuðu leikinn betur og áttu fyrsta höggið eftir sjö mínútna leik. Selfyssingar urðu fyrir áfalli undir lok fyrri hálfleiks þegar Reynir Freyr Sveinsson fór meiddur af velli eftir höfuðhögg. Reynir fór í kjölfarið á sjúkrahúsið á Akureyri til nánari skoðunar. Það voru 30 sekúndur liðnar af síðari hálfleik þegar heimamenn tvöfölduðu forskot sitt og brekkan því orðin talsvert brattari fyrir okkar menn. Það var þó engan bilbug að finna á okkar mönnum og minnkaði Gonzalo Zamorano muninn eftir klukkutíma leik. Gullið tækifæri gafst til þess að jafna metin þegar Selfoss fékk vítaspyrnu þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Guðmundur Tyrfingsosn fór á punktinn en setti boltann í stöngina, afar svekkjandi. Jöfnunarmarkið kom ekki og stigin þrjú heimamanna. Næsti leikur karlaliðsins er gegn ÍA næstkomandi föstudagskvöld á JÁVERK-vellinum.
ÁFRAM SELFOSS!