Barbára Sól og Haukur íþróttafólk Umf. Selfoss 2019

Umf. Selfoss - Íþróttafólk ársins Haukur og Barbára Sól
Umf. Selfoss - Íþróttafólk ársins Haukur og Barbára Sól

Handknattleiksmaðurinn Haukur Þrastarson og knattspyrnukonan Barbára Sól Gísladóttir voru valin íþróttakarl og íþróttakona ársins 2019 hjá Ungmennafélagi Selfoss á verðlaunahátíð félagsins sem var haldin í félagsheimilinu Tíbrá í gær.

Barbára Sól er lykilleikmaður hjá Selfoss en liðið hampaði í sumar Mjólkurbikar KSÍ eftir glæstan sigur á KR í framlengdum úrslitaleik. Í Pepsi Max deildinni varð liðið í þriðja sæti og jafnaði sinn besta árangur frá upphafi. Barbára spilaði alla leiki liðsins í deild og bikar á tímabilinu. Barbára Sól lék alla þrettán leiki U19 ára liðs Íslands á árinu.

Haukur er lykilmaður í liði Selfoss sem landaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í vor. Hann var jafnframt valinn efnilegasti leikmaður Olísdeildarinnar. Á yfirstandandi tímabili er Haukur markahæsti leikmaður deildarinnar með 114 mörk. Haukur er fastamaður í landsliði Íslands og lék í janúar með liðinu á HM í Þýskalandi og varð þar með yngsti leikmaður í sögu Íslands til að leika á stórmóti í handbolta.

Á verðlaunahátíðinni var íþróttafólk ársins í deildum félagsins einnig heiðrað, en hver deild Umf. Selfoss gat tilnefnt íþróttakarl og íþróttakonu í sinni deild. Auk Barbáru Sólar og Hauks voru eftirfarandi einstaklingar tilnefndir: Fimleikafólkið Evelyn Þóra Jósefsdóttir og Sindri Snær Bjarnason, frjálsíþróttafólkið Dagur Fannar Einarsson og Eva María Baldursdóttir, handknattleikskonan Hulda Dís Þrastardóttir, júdómaðurinn Egill Blöndal, knattspyrnumaðurinn Guðmundur Tyrfingsson, mótokrossmaðurinn Bjarki Breiðfjörð Björnsson, sundkonan Sara Ægisdóttir og taekwondofólkið Þorsteinn Ragnar Guðnason og Dagný María Pétursdóttir.

---

Á mynd með frétt eru Haukur og Barbára Sól íþróttfólk Umf. Selfoss 2019.

Á mynd fyrir neðan er íþróttafólk deilda hjá Umf. Selfoss. Í aftari röð f.v. eru Björn Ingi Gíslason sem tók við viðurkenningu f.h. Barbáru Sólar, Þorsteinn Ragnar, Haukur, Guðmundur, Dagur Fannar, Egill, Bjarki Breiðfjörð, Sindri Snær og Viktor S. Pálsson formaður Umf. Selfoss. Í fremri röð f.v. eru Sara, Eva María, Hulda Dís, Evelyn Þóra og Ófeigur Ágúst Leifsson sem tók við viðurkenningu f.h. Dagnýjar Maríu.

Ljósmynd: Umf. Selfoss/Inga Heiða