2013-04-13 12.58.20
Íslandsmót í Júdó 2013 fór fram 13. apríl en að þessu sinni kepptu aðeins tveir keppendur fyrir UMFS þeir Egill Blöndal og Grímur Ívarsson.
Egill var að keppa í fyrsta skipti í -90kg flokki á Íslandsmóti og gekk vel þó hann væri í léttara lagi í þessum þyngdarflokki. Fyrst keppti Egill við Jón Sigurðsson Draupni öflugan júdómann að norðan, en Egill náði að knýja fram sigur með sannfærandi hætti. Næst áttust þeir við Egill og Þorvaldur Blöndal JDÁ og varð Egill að játa sig sigraðan gegn þessum frábæra gamla júdókappa, en Þorvaldur náði Agli í gólfið og vann fullnaðarsigur á fastataki. Að lokum keppti Egill við Kolbein Kristjánsson JDÁ hafði Egill nokkra yfirburði í þessarri viðureign sem lauk með fullnaðarsigri Egils á „ippon“ kasti, þannig að Egill náði öðru sæti á efir Þorvaldi Blöndal.
Grímur Ívarsson var að stíga sín fyrstu skref í flokki fullorðina og keppti í -81kg flokki en Grímur er aðeins 15 ára og nokkuð léttur í þessum flokki, þannig að ljóst var að þetta yrði erfiður dagur hjá Grími. Auk þess er -83kg flokkurinn trúlega sá sterkasti á Íslandi þessa dagana. Þar sem eru fyrir bardagamenn eins og Kristján Jónsson, Jón Þórarinsson og Sveinbjörn Iura. Fyrstu viðureign átti Grímur við Kristján Daðason JR og stóð Grímur fyllilega undir væntingum en varla var hægt að búast við að Grímur næði að sigra Kristján Daðason, sem hefur bætt sig mjög frá síðsta ári enda fór svo að Kristján vann þessa viðureign. Næst keppti Grímur við Kristján Jónsson, sem gekk sérlega vel á þessu móti, og átti Grímur við ofurefli að etja og tapaði þessarri viðureigna eftir snörp átök. Kristján Jónsson JR hélt síðan áfram sigurgöngu sinni og vann Sveinbjörn Iura í loka viðureign á glæsilegu „ippon kasti“ fullnaðar sigur í höfn og Íslandsmeistara titill, en þeir Kristján og Sveinbjörn hafa einmitt í mörgum undanförnum mótum barist um úrslitin í -83kg flokki og Sveinbjörn oftast náð að knýja fram sigur efir langa og stranga keppni í seinni tíð.
Egill var ekki hættur keppni því hann ákvað að taka einnig þátt í opnaflokknum þar sem kepptu meðal annarra kappa sterkasti judomaður landsins Þormóður Jónsson JR ný krýndur Íslandsmeistari í þungavikt. Egill brást ekki aðdáendum sínum og náði 3. Sæti eða bronsi, fyrst keppti hann við Kristján Daðason JR og sigraði Egill af öryggi en því næst við Þormóð Jónsson JR og þar varð Egill að játa sig sigraðan af þessum sterka judomanni enda þyngdarmunurinn mikill eða um 40 kg. Að lokum keppti Egill við Óskar Arnórsson úr JDÁ um þriðja sætið, en Óskar var þá nýbúinn að vinna 2. Sæti í – 100 kg flokki. Egill stóð sig frábærlega og endaði daginn á að sigra Óskar á fullnaðarsigri með því að halda Óskari í fastataki.