Kvennalið Íslands tekur á móti verðlaunum.
Dagana 16. - 19. október síðastliðinn fór fram Evrópumót í hópfimleikum. Mótið fór fram í Azerbaijan.
Fimleikasamband Íslands sendi þangað 5 landsliðs, 3 í unglingaflokki og 2 í fullorðinsflokki.
Selfoss átti iðkendur eða þjálfara í öllum liðum. Liðin kepptu í undanúrslitum á miðvikudegi og fimmtudegi og komust öll í úrslit. Úrslitadagur unglinga var föstudaginn 18. október en úrslit fullorðinna laugardaginn 19. október.
Aníta Þorgerður Tryggvadóttir, deildarstjóri og þjálfari hjá deildinni þjálfaði unglingalið drengja á mótinu. Þeir áttu góðan dag í undankeppninni þar sem vottaði fyrir örlitlu stressi en komust í úrslitin í 5. sæti. Á úrslitadeginum áttu þeir stórgóðan dag, gerðu hrein og örugg stökk og fallegar gólfæfingar sem skilaði þeim 4. sæti - mikil gleði með það og drengirnir eiga svo sannarlega framtíðina fyrir sér.
Drengjalið Íslands á Evrópumóti 2024. Mynd: Agnes Suto
Blandað lið unglinga keppti næst til úrslita en þau áttu frábært mót í undanúrslitum, þar sem hún Katrín Drífa Magnúsdóttir, iðkandi í 1. flokki hjá okkur átti góðan dag og skilaði af sér hreinum og öruggum stökkum. Liðið var í fyrsta sæti eftir undanúrslitin og þau gerðu sér lítið fyrir og endurtóku leikinn á úrslitadaginn; frábær dagur sem endaði með sigri og Evrópumeistaratitli! Hjartanlega til hamingju með þennan frábæra árangur!
Blandað lið unglinga á Evrópumóti 2024. Mynd: Agnes Suto
Stúlknalið Íslands var síðasta lið Íslands til þess að keppa í úrslitum á föstudeginum. Í liðinu voru 4 stúlkur frá Selfossi, þær Elsa Karen Sigmundsdóttir, Kristín María Kristjánsdóttir, Magdalena Ósk Einarsdóttir og Victoria Ann Vokes. Stökkþjálfarar liðsins eru einnig frá Selfossi, þau Mads Pind og Tanja Birgisdóttir. Stúlkurnar áttu mjög góðan dag í undanúrslitum og skiluðu miklum erfiðleika í vel framkvæmdum æfingum, sem skilaði þeim í 3. sæti inn í úrslit. Á úrslitadegi áttu þær aftur góðan dag þrátt fyrir smá hnökra og héldu þær 3. sætinu í úrslitum og eru því 3. besta stúlknalið í Evrópu. Frábær árangur - innilega til hamingju!
Stúlknalið Íslands á Evrópumóti 2024. Mynd: Agnes Suto
Á laugardeginum kepptu svo fullorðinsliðin okkar til úrslita. Í kvennakeppninni var samkeppnin við Svíþjóð hörð, en Ísland fór í 2. sæti inn í úrslitin, 0.7 stigum á eftir Svíþjóð. Á úrslitadegi komu þær Karolína Helga Jóhannsdóttir og liðsfélagar tvíefldar til leiks, sáu og sigruðu! Öll stökk lent og stórkostlegar gólfæfingar skiluðu þeim verðskulduðum Evrópumeistaratitli. Hjartanlegar hamingjuóskir!
Kvennalið Íslands á Evrópumóti 2024. Mynd: Agnes Suto
Að lokum steig blandað lið fullorðinna á stokk, en þau fóru í 4. sætinu inn í úrslitin. Í liðinu var Birta Sif Sævarsdóttir sem æfir með meistaraflokki á Selfossi. Þá fór Silvia Rós Nokkala Valdimarsdóttir sem einnig æfir með meistaraflokki með til Azerbaijan og átti að keppa með liðinu en varð fyrir því óhappi að meiðast á fyrstu æfingunni og þurfti því að hvíla á mótinu. Liðið átti nokkuð góðan dag í úrslitum þrátt fyrir einhverja hnökra og endaði í 5. sæti. Til hamingju!
Blandað lið fullorðinna á Evrópumóti 2024. Mynd: Agnes Suto
Það er ljóst að framtíð fimleika á Íslandi er svo sannarlega björt, efnilegir unglingar á leið í fullorðinsflokka og virkilega flottar fyrirmyndir og reynsuboltar nú þegar í fullorðinsflokkum. Til hamingju Ísland með frábæran árangur!