FRÍ logo blátt
Unglingameistaramót Íslands í frjálsíþróttum 15 – 22 ára var haldið í Laugardalshöllinni um síðustu helgi.
Keppnislið HSK/Selfoss tók þátt í mótinu og varð í fjórða sæti í stigakeppninni. Alls settu keppendur okkar þrjú HSK met og ein 37 persónuleg met voru slegin hjá keppnisliðinu. Uppskeran í verðlaunum voru fimm gull, fjögur silfur og ellefu brons.
Ástþór Jón Tryggvason Selfossi bætti ársgamalt HSK met sitt í 3.000 metra hlaupi í flokki 18 – 19 ára og 20-22 ára um 22 sekúndur. Hann hljóp á 10:23,93 mín. Þá setti Sverrir Heiðar Davíðsson Selfossi met í kúluvarpi 18-19 ára með 6 kg. kúlu. Hann kastaði 12,46 metra. Dagur Fannar Magnússon átti metið, sem var 11,71 m.
Styrmir Dan Steinunnarson Þór varð tvöfaldur Íslandsmeistari í flokki 16-17 ára, hann stökk 1,90 metra í hástökki og hljóp 60 m grindahlaup á 9,58 sek. Þrír titlar unnust í 15 ára flokki. Antony Karl Florens Laugdælum vann 60 m grind á 9,58 sek., Jakob Unnar Sigurðsson Þór vann kúluvarp með 11,06 metra og Ragnheiður Guðjónsdóttir Hrunamönnum kastaði kúlunni lengst allra, 11,90 metra.