Fjölnismenn sterkari í baráttuleik

Handbolti - Þórir Ólafsson
Handbolti - Þórir Ólafsson

Selfoss lá fyrir Fjölnismönnum í fyrsta leik liðanna í umspili um laust sæti í Olís-deild. Mikil barátta var í leiknum enda mikið í húfi.

Það var mikill hraði strax í byrjun og greinilega talsverð spenna hjá leikmönnum. Jafnt á öllum tölum og eftir tíu mínútur var staðan 6-6. Selfoss náði þriggja marka forskoti þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður en Fjölnismenn jöfnuðu fyrir hálfleik 16-16 og leikurinn í járnum.

Fjölnismenn komust í fyrsta skipti yfir í leiknum í upphafi seinni hálfleiks 18-17 en áfram gríðarleg spenna og munurinn aldrei nema eitt mark fram í miðjan seinni hálfleik. Heimamenn náðu þriggja marka forskoti korteri fyrir leikslok og héldu því til leiksloka, lokatölur 33-30.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Markahæstur Selfyssinga var Andri Már Sveinsson með 7 mörk, Elvar Örn Jónsson og Teitur Örn Einarsson skoruðu 6 mörk hvor, Hergeir Grímsson, Atli Kristinsson og Þórir Ólafsson 3 mörk hver og Guðjón Ágústsson og Gunnar Páll Júlíusson skoruðu sitt markið hvor.

Annar leikur liðanna fer fram á heimavelli okkar Selfyssinga á morgun, þriðjudaginn 26. apríl kl. 19:30. Liðið sem fyrr vinnur þrjá leiki fer upp í Olís-deildina.

---

Þórir Ólafsson í þann mund að skora eitt af þremur mörkum sínum í leiknum.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/JÁE