Self-stjarnan 21.03.14
Selfoss átti flottan leik á móti Stjörnunni í kvöld. Stjarnan leiddi í upphafi leiks en Selfyssingar tóku fljótt við sér með og jöfnuðu leikinn. Góð barátta var hjá báðum liðum. Sebastian byrjaði í markinu og var búinn að loka því vel þegar hann meiddist illa og kom ekki meira við sögu. Sverrir Andrésson tók hans stöðu og varði vel fyrir aftan góða vörn Selfoss. Seinni hluta fyrri hálfleiks náði Selfoss mest fjögurra marka forystu en leiddi 15-13 þegar blásið var til leikhlés.
Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og náði mest átta marka forystu í stöðunni 28-20. Munaði þar mestu um frábæran varnarleik, góða markvörslu og agaðan sóknarleik liðsins. Stjarnan lét mótlætið aðeins pirra sig og fékk einn leikmaður þeirra rautt spjald eftir að hafa brotið á leikmanni Selfoss. Lokatölur leiksins urðu 31-25.
Þetta var einn besti leikur Selfoss í vetur en allir leikmenn voru að spila vel, bæði í vörn og sókn og góð barátta í mönnum. Menn greinilega vel stemmdir og ákveðnir í að vinna leikinn og má með réttu segja að sigurinn hafi verið liðsheildarinnar. Með þessum sigri er Selfoss aðeins einu stigi á eftir Stjörnunni og baráttan heldur áfram í toppbaráttunni. Það var gaman að sjá hve margir mættu í húsið í kvöld frá báðum liðum og var stemmingin í húsinu mjög góð.
Ómar Ingi var markahæstur í liði Selfoss með átta mörk. Einar Sverrisson skoraði 7, Andri Már og Sverrir Pálsson fjögur, Hergeir og Andri Hrafn skoruðu þrjú hvor og Jóhann Erlings skoraði tvö.
Næsti leikur Selfoss er á útivelli en þá sækja þeir Þróttara heim. Vonandi mæta sem flestir á þann leik en það hefur verið gaman að fylgjast með liðinu í vetur sem hefur núna unnið 14 leiki í vetur, tapað tveimur og gert eitt jafntefli.
Á meðfylgjandi mynd fagna leikmenn Selfoss sigrinum á Stjörnunni